Kennsla á dánarbeði

Í báðum tilfellum klæddi Spánverji Ben Crenshaw í græna jakkann. …
Í báðum tilfellum klæddi Spánverji Ben Crenshaw í græna jakkann. Hér er það sjálfur Seve Ballesteros árið 1984. Reuters

Masters-mótsins í golfi árið 1995 verður fyrst og fremst minnst fyrir tvennt. Annars vegar markaði það upphaf þátttöku Tigers Woods á Masters. Hann keppti þá í fyrsta skipti og gerði það sem áhugamaður. Hafði unnið sér þátttökurétt með sigri á bandaríska áhugamannamótinu árið 1994. Woods hafnaði í 41. sæti og varð efstur áhugamanna í mótinu. Hins vegar er mótsins minnst fyrir sigur Bens Crenshaws sem þótti afar óvæntur. Er Crenshaw næstelsti sigurvegari í sögu mótsins (þegar greinin var skrifuð) og í hópi elstu manna til að vinna risamót í golfi.

Crenshaw var þó allt annað en lítt þekktur kylfingur. Hann var með ævilangan keppnisrétt á Masters eftir að hafa sigrað á mótinu árið 1984. Hér má skjóta því inn að Masters-mótið er fyrsta risamót ársins af fjórum í golfinu. Fer það ávallt fram á Augusta National-vellinum í Georgíuríki í Bandaríkjunum.

Masters er eina risamótið sem Crenshaw tókst að vinna þrátt fyrir að hafa nokkrum sinnum verið í toppbaráttunni á slíkum mótum. Hafnaði til að mynda í 2. sæti á Opna breska meistaramótinu tvö ár í röð, 1978 og 1979. Einnig varð hann í 2. sæti á PGA-meistaramótinu 1979 og náði best 3. sæti á Opna bandaríska mótinu 1975. Eins og þessi ártöl gefa til kynna hafði hátindinum á ferli Crenshaws verið náð áður en apríl rann upp árið 1995. Eða svo héldu í það minnsta flestir.

Sá gamli vildi fá að laga púttin

Ben Crenshaw fæddist í byrjun árs 1952 og var því orðinn 43 ára þegar Masters fór fram árið 1995. Lærifaðir hans, Harvey Penick golfkennari, var farinn að gefa verulega eftir í upphafi árs enda fæddur árið 1904. Svo fór að hann lést skömmu fyrir Masters-mótið 1995. Penick naut virðingar í golfheiminum enda hafði hann þjálfað fleiri afburðakylfinga á borð við Tom Kite. Penick er meðlimur í frægðarhöll íþróttarinnar en hann skrifaði kennslubækur seint á lífsleiðinni sem nutu vinsælda.

Crenshaw sló öðrum gjarnan við á flötunum. Hér púttar hann …
Crenshaw sló öðrum gjarnan við á flötunum. Hér púttar hann á sínu síðasta risamóti, Masters árið 2015. AFP

Við andlát Penicks var greint frá því í New York Times að hann hefði gefið Crenshaw ráð á dánarbeðnum. Crenshaw var þekktur fyrir að vera einn sá besti í heimi í púttum. Er þarna var komið sögu hafði Crenshaw gengið í gegnum tímabil þar sem hann púttaði illa. Þegar hann heimsótti Penick á dánarbeðnum bárust þessi vandræði Crenshaws í tal. Lærifaðirinn heimtaði að fá að leiðbeina honum varðandi púttin og hvernig hann gæti leysti vandann. Fékk hann sínu framgengt og þótt Crenshaw hafi grunað að þar færi fram síðasta kennslustundin gat hann ekki ímyndað sér hvaða áhrif hún átti eftir að hafa skömmu síðar.

Jarðað daginn fyrir Masters

Þeim Crenshaw og Kite var vandi á höndum í aðdraganda Masters. Ákveðið var að jarða Penick á miðvikudegi, daginn áður en Masters hófst. Penick fæddist og dó í Austin í Texas og þar var hann jarðaður. Ekki kom annað til greina hjá Crenshaw og Kite en að vera viðstaddir. Enda bjóst svo gott sem enginn við því að þeir næðu árangri á Masters. Áttu báðir að vera á niðurleið á sínum ferli. Auk þess tóku þeir báðir að sér að vera í hópi líkmanna sem báru Penick síðasta spölinn.

Eftir að hafa fylgt Penick dreif Crenshaw sig frá Texasríki til Georgíuríkis. Hér er um að ræða rúma 1.500 kílómetra og skilaði Crenshaw sér til Augusta kvöldið áður en mótið hófst. Fór hann á teig morguninn eftir með engar væntingar. Bestu kylfingar heims voru allir búnir að eyða nokkrum dögum á staðnum til þess að æfa og taka út völlinn. Enda er það hefðbundinn undirbúningur fyrir golfmót af þessari stærðargráðu.

Öll vandamál voru horfin

Crenshaw tókst að leika Augusta á 70 höggum daginn eftir jarðarförina. Var því á tveimur undir pari en ekki í hópi allra efstu manna. Á þeim tímapunkti gerði sjálfsagt enginn sérstaklega ráð fyrir að hann myndi blanda sér í baráttuna. Crenshaw hafði fagnað sigri á einu móti árið áður og sex sinnum hafnað á meðal tíu efstu á PGA-mótaröðinni árið 1994. Aðeins einu sinni var hann á meðal tíu efstu árið 1993 en árið 1995 gerðist það fjórum sinnum. Maðurinn var einfaldlega ekki á meðal bestu kylfinga heims á þessum tímapunkti.

Einhvern veginn tókst Crenshaw hins vegar að laða fram allt það besta í sínum leik og öll vandamál varðandi púttin voru horfin. Hann púttaði eins vel og hann hafði iðulega gert á sínum ferli. Á öðrum degi skilaði hann inn skori upp á 67 högg. Frábær hringur og var þá samtals sjö högg undir pari.

Á forsíðu Sports Illustrated árið 1974.
Á forsíðu Sports Illustrated árið 1974.

Efstur eftir þriðja hring

Var hann í fjórða sæti þegar mótið var hálfnað en gerði sér fulla grein fyrir því eftir langan feril að mikið þyrfti að gerast um helgina til að slá öllum öðrum við og vinna. Crenshaw gerði hins vegar fá mistök þrátt fyrir að hann yrði smám saman meira til umræðu og umfjöllunar þegar leið á mótið. Voru fjölmiðlamenn að sjálfsögðu með á nótunum varðandi fráfall lærimeistarans og sáu möguleika á athyglisverðri frétt.

Eftir að hafa leikið á 69 höggum var Crenshaw samtals á 10 undir pari. Var hann þá efstur ásamt Brian nokkrum Henninger og voru þeir því í síðasta ráshópnum á lokahringnum.

Ekki vantaði hins vegar góða kylfinga í næstu sætum. Fred Couples var til dæmis höggi á eftir en hann leikur alla jafna eins og engill á Augusta. Jafnir honum voru Steve Elkington, Jay Haas, Scott Hoch og Phil Mickelson sem þá var ungur og efnilegur. Allt kunnir kylfingar. Curtis Strange var átta undir pari og Greg Norman sjö undir. Nóg var því af hörkukylfingum til þess að setja pressu á Crenshaw á lokahringnum.

Lokahringur á 68 höggum

Pressuna stóðst Crenshaw hins vegar með sóma, meðal annars vegna frábærrar framgöngu á flötunum. Honum tókst að leika á 68 höggum á lokahringnum og lauk því keppni á samtals 14 höggum undir pari. Öruggt par á 72. holu nægði til þess að vinna Davis Love III með eins höggs mun en Love III tókst að leika á 66 höggum á lokahringnum. Jay Haas og Greg Norman voru þremur höggum á eftir. Crenshaw hafði haldið tilfinningum í skefjum meðan á mótinu stóð en sýndi miklar tilfinningar þegar sigurinn var í höfn.

Ben Crrenshaw fagnar sigri á Augusta 1995. Í baksýn er …
Ben Crrenshaw fagnar sigri á Augusta 1995. Í baksýn er Jose Maria Olazabal sem sigraði árið 1994 og klæddi sigurvegarann í græna jakkann venju samkvæmt. Reuters

„Þetta var sannarlega mitt mót. Ég man ekki eftir því að hafa nokkrum sinnum spilað 72 holur í móti með aðeins fimm skolla,“ sagði Crenshaw við Augusta Chronicle og umboðsmaður Crenshaws hafði aldrei séð hann leika jafn vel. „Þetta er besta frammistaða Crenshaws á ferlinum. Carl (Jackson, kylfuberi Crenshaws) segir hann hafa leikið miklu betur en þegar hann sigraði árið 1984. Hann hafði miklu betri stjórn á því sem hann ætlaði sér að gera,“ sagði umboðsmaðurinn Scotty Sayers.

Úrslitin á Masters árið 1995 eru eitt af mörgum dæmum sem íþróttasagan geymir um að ekki er alltaf hægt að segja fyrir um úrslit fyrirfram. Einnig eru þau vísbending um að stundum getur verið ágætt að hugsa um eitthvað allt annað í aðdraganda keppni en eingöngu keppnina sem framundan er.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 5. apríl 2016. 

Ben Crenshaw var liðsstjóri bandaríska liðsins sem sigraði í Ryder-bikarnum …
Ben Crenshaw var liðsstjóri bandaríska liðsins sem sigraði í Ryder-bikarnum árið 1999 eftir harða keppni á Brookline-vellinum. Bandaríkjamenn unnu ekki aftur fyrr en árið 2008. Reuters
mbl.is