Líklegt að Guðmundur haldi utan með vorinu

Guðmundur Ágúst Kristjánsson
Guðmundur Ágúst Kristjánsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, kylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur, hefur dvalið hérlendis í vetur og veltir fyrir sér hvernig hann vill haga útgerðinni á árinu. Guðmundur er með keppnisrétt á Áskorendamótaröð Evrópu eins og í fyrra. Með vorinu mun hann væntanlega byrja að keppa í Evrópu en vegna heimsfaraldursins fer hann sér hægt eins og aðrir í að gera áætlanir.

„Maður þorir ekki að bóka neitt þótt mótaskráin hafi verið gefin út. Mótaröðin byrjar í Suður-Afríku 22. apríl og þar verða þrjú mót en þau áttu upphaflega að vera í febrúar. Vikuna eftir það byrja mótin í Evrópu og eru mót á dagskrá nánast allar helgar fram í nóvember,“ sagði Guðmundur Ágúst sem á eftir að velja hvaða mót hann fer í enda segist hann sjaldan taka meira en þrjú mót í röð. „Ég veit ekki alveg hvernig ég geri þetta. Síðasta sumar var hrikalega leiðinlegt að koma heim í viku og vera sex daga í sóttkví. Það væri æðislegt ef það yrði komið bóluefni svo hægt væri að sleppa við það. Þetta var fínt þegar smitgát var notuð,“ sagði Guðmundur þegar Morgunblaðið hafði samband.

Til mikils að vinna

Áskorendamótaröðin er sú næststerkasta í Evrópu og í vissum skilningi eins og B-deild fyrir Evrópumótaröðina þar sem margir af bestu kylfingum Evrópu spila. Áhugafólk um golfíþróttina hérlendis er farið að þekkja ágætlega til þar sem Birgir Leifur Hafþórsson var lengi með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni, þá Axel Bóasson og nú Guðmundur ásamt Haraldi Franklín Magnús. Í lok tímabilsins getur góð staða á stigalistanum opnað ýmsar dyr. Það getur sigur í stöku móti einnig gert eins og gerðist þegar Birgir Leifur vann mót í Frakklandi haustið 2017.

„Til mikils er að vinna því tuttugu efstu sætin á mótaröðinni gefa keppnisrétt á Evrópumótaröðinni árið eftir. Auk þess fá fjörutíu og fimm efstu einhvern keppnisrétt á Evrópumótaröðinni. Það getur þýtt að menn fá kannski sex til sjö mót árið eftir en veltur á ýmsu,“ sagði Guðmundur en segir of snemmt að segja til um hvort hann muni fara í æfingabúðir í hlýrra loftslagi áður en mótaröðin fer af stað.

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »