Aron ráðinn landsliðsþjálfari

Aron Kristjánsson, nýráðinn landsliðsþjálfari.
Aron Kristjánsson, nýráðinn landsliðsþjálfari. mbl.is/Eggert

Aron Kristjánsson var nú í hádeginu kynntur til leiks sem nýr þjálfari karlalandsliðsins í handknattleik. Aron, sem er þjálfari Hauka, tekur við starfi Guðmundar Þórðar Guðmundssonar sem stýrði liðinu í síðasta sinn í leiknum gegn Ungverjum á Ólympíuleikunum í London. Samningur Arons gildir til ársins 2015.

Aron mun þjálfa Hauka út komandi leiktíð en hann mun síðan láta af störfum hjá félaginu í vor og einbeita sér alfarið að landsliðinu.

Knútur G. Hauksson sagði á blaðamannafundi sem nú stendur yfir að Aron hafi verið efstur á blaði og gengið hafi verið frá samningi við hann fyrir Ólympíuleikana.

Búið er að ganga frá því að Gunnar Magnússon verður áfram í þjálfarateymi liðsins og Óskar Bjarni Óskarsson hefur áhuga á að halda starfi sínu áfram sem aðstoðarlandsliðsþjálfari en hann er tekinn við þjálfun danska liðsins Viborg. „Vonandi verður Óskar áfram í þjálfarateyminu en hann þarf að ganga frá nokkrum málum við Viborg varðandi það en félagið hefur tekið vel í þetta,“ sagði Knútur.

Fyrsta verkefni Arons með landsliðið verður undankeppni Evrópumótsins en Íslendingar hefja leik í undankeppninni með leik gegn Hvít-Rússum þann 31. október en liðin sem Íslendingar spila með í riðlinum eru: Hvít-Rússar, Slóvenar og Rúmenar.

Ísland er síðan á meðal þátttökuþjóða á heimsmeistaramótinu en úrslitakeppnin verður haldin á Spáni í janúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina