Óli Stef: Fæ kannski að heyra það þegar við töpum

„Ég veit eiginlega ekki ennþá alveg af hverju við unnum. Ég hlakka til að komast að því,“ sagði Ólafur Stefánsson þjálfari Vals sem var ánægður með sína menn eftir að þeir lönduðu sigri í fyrsta leik í Olís-deildinni gegn Haukum í kvöld, 27:22.

„Ég er ánægður með karakterinn sem við sýndum. Við héldum alltaf haus. Við lentum tvisvar eða þrisvar í vandræðum í leiknum, svona lægðum, en héldum haus. Við hefðum getað misst þetta frá okkur, þeir eru það fljótir að refsa, og ég er mjög þakklátur að hafa unnið,“ sagði Ólafur.

„Það að vinna léttir aðeins á mönnum. Menn verða opnari fyrir jákvæðri gagnrýni. Við eigum langan veg fyrir höndum, það er fullt af hlutum sem við þurfum að betrumbæta og gera, og miðað við þann tíma sem við höfum haft get ég ekki annað en verið sáttur,“ sgaði Ólafur sem notaði í raun tvö ólík Valslið í leiknum og skipti þannig leiktímanum vel á milli sinna manna.

„Það þarf mikið að gerast til að við breytum út frá því. Ég sé enga ástæðu til þess. Við spiluðum allan undirbúninginn með tvö lið og menn vissu ekkert hvort þeir væru A eða B,“ sagði Ólafur og viðurkennir að með þessu sé hann að vissu leyti að leika sér að eldinum þegar kemur að því að tryggja sigur í hverjum leik.

„Vissulega. Ef við hefðum tapað þá hefði maður fengið einhverjar raddir. Kannski fæ ég þær ef þetta gengur ekki í næsta leik eða þarnæsta, og einhvern tímann töpum við. Þá fær maður að heyra það. En ég trúi á þetta, að hafa alla virka, en við sjáum hvað gerist,“ sagði Ólafur.

mbl.is

Bloggað um fréttina