Hungraðar í að fara alla leið

Ragnheiður Sveinsdóttir, Elín Jóna Þorsteinsdóttir og Karen Helga Díönudóttir.
Ragnheiður Sveinsdóttir, Elín Jóna Þorsteinsdóttir og Karen Helga Díönudóttir. mbl.is/Eva Björk

„Við erum búnar fara í undanúrslitin í Höllinni síðustu tvö ár en í bæði skiptin tapa þar fyrir Val. Þess vegna var ágætt að láta þær sitja eftir í gær,“ sagði Karen Helga Díönudóttir, fyrirliði Hauka, sem ætlar með liðinu þriðja árið í röð í úrslitahelgina í Coca Cola-bikarnum í handbolta.

Haukar slógu Val út í gærkvöld og í dag varð svo ljóst að liðið myndi mæta HK í 8-liða úrslitunum. Liðin sem komast áfram úr 8-liða úrslitum taka þátt í úrslitahelginni eftirsóttu. Karen Helga vildi ekki taka neitt sérstaklega undir það að Haukar hefðu getað orðið mun óheppnari með andstæðing í 8-liða úrslitunum:

„Þetta mót er búið að spilast þannig í vetur að það er erfitt að segja. Við mættum HK í vetur og vorum undir gegn þeim í hálfleik [innsk: Haukar unnu svo 29:24]. Við eigum von á hörkuleik en munum gera allt til að komast í Höllina,“ sagði Karen.

„Bikarinn er alltaf svo skemmtilegur. Maður fann það til dæmis á stemningunni eftir leikinn í gær. Þetta er öðruvísi, alltaf úrslitaleikir og maður þarf að passa sig á að „ofpeppast“ ekki í svona leikjum,“ sagði Karen, sem segir ljóst að Haukaliðið ætli að komast enn lengra en síðustu tvö ár:

„Við erum mjög hungraðar í að fara alla leið og munum gera allt til þess að það gerist.“

mbl.is