„Þetta var kannski ekkert sérstakur leikur“

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV.
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV. Ófeigur Lýðsson

„Þetta var heilt yfir mjög gott, alveg frá okkar aftasta manni og fram í þann fremsta. Við spiluðum mjög vel fyrstu þrjátíu mínúturnar og ég er mjög ánægður með sigurinn,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, eftir sigur á Selfossi – á Selfossi – í Olísdeild karla í handbolta í kvöld.

ÍBV hleypti Selfyssingum aldrei inn í leikinn og lagði grunninn að sigrinum með frábærri vörn í fyrri hálfleik. Lokatölur urðu 27:36 en ÍBV leiddi 11:20 í hálfleik.

„Selfyssingarnir köstuðu handklæðinu inn fljótlega í seinni hálfleik þannig að leikurinn var nánast búinn þegar tuttugu mínútur voru eftir. Það er kannski eðlilegt. Við hittum á góðan dag og Selfyssingarnir ekki. Þannig að þetta var kannski ekkert sérstakur leikur,“ bætti Arnar við, en Eyjamenn áttu harma að hefna gegn Selfyssingum í kvöld.

„Við erum búnir að tapa þremur stigum gegn Selfyssingum í vetur og þeir slógu okkur út úr bikarnum þannig að við vorum fókuseraðir á það að svara fyrir það í kvöld. Stemmningin var eftir því, menn voru ákveðnir í að gera vel og hugarfarið var frábært, þannig að ég fagna því,“ sagði Arnar að lokum.

mbl.is