Þriðji bikarinn á hálfu ári

Agnar Smári stjórnar sigurdansi Eyjamanna.
Agnar Smári stjórnar sigurdansi Eyjamanna. mbl.is//Hari

ÍBV er á ágætri leið með að verða fyrirferðarmikið í íslensku íþróttalífi. Á liðlega hálfu ári hafa Eyjamenn siglt heim til Vestmannaeyja með þrjá bikara úr höfuðborginni úr bikarkeppnum KSÍ og HSÍ.

Á laugardaginn fagnaði ÍBV sigri í Coca Cola-bikar karla í handknattleik og hefur liðið þá orðið tvívegis bikarmeistari á þremur árum og þrívegis alls í sögu félagsins. ÍBV vann sanngjarnan sigur á Fram 35:27 í úrslitaleik í Laugardalshöll. Liðlega þúsund hvítklæddir Eyjamenn fögnuðu innilega á áhorfendapöllunum en stuðningsmenn ÍBV kunna að setja svip sinn á úrslitaleiki.

Agnar Smári Jónsson upplifði draum flestra leikmanna; að vera óstöðvandi í bikarúrslit í Laugardalshöllinni. Skoraði hann alls tólf mörk úr skyttustöðunni hægra megin og þurfti ekki til þess nema þrettán tilraunir. Langflest mörkin skoraði Agnar utan af velli og nánast allar hans tilraunir virtust ganga upp þennan daginn. Kom það sér afskaplega vel fyrir ÍBV því Framarar reyndu hvað þeir gátu að halda þeim Róberti Aron Hostert og Sigurbergi Sveinssyni niðri. Ekki er hægt að segja annað en hægri vængurinn hafi verið líflegur hjá ÍBV því Theodór Sigurbjörnsson skoraði 8 mörk í horninu og komu því 20 mörk frá tveimur mönnum af hægri vængnum. Löngum hefur farið það orð af Eyjamönnum að vera hægri sinnaðir en fyrr má nú rota en dauðrota.

Tekur 30% af hrósinu

„Ég átti fínan leik og get ekki sagt annað. Grétar bjó mikið til fyrir mig og Róbert og Sigurbergur spiluðu frábærlega. Kári og Elliði á línunni opnuðu einnig vel fyrir mig og ég get því ekki eignað mér allt hrós. Ég skal taka 30% af því en samherjarnir bjuggu til 70% af þessu,“ sagði Agnar þegar Morgunblaðið náði tali af honum eftir kampavínsbað Eyjamanna í búningsklefanum. Agnar náði sér ekki sérstaklega á strik í undanúrslitaleiknum gegn Haukum en lét það ekki hafa áhrif á sig. „Róbert sagði við mig: Gaur, gleymdu þessu í gær. Þú varst ömurlegur en þetta verður geggjað í dag. Það verður allt inni hjá þér í dag. Ég gat ekki annað en hlustað á hann.“

Sjá allt um bikarúrslitin í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag