Farið að lengja eftir að komast aftur inn á völlinn

Janus Daði Smárason í leik með íslenska landsliðinu gegn Svíum.
Janus Daði Smárason í leik með íslenska landsliðinu gegn Svíum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hef verið mjög slæmur í öðru hnénu síðustu vikur,“ sagði landsliðsmaðurinn í handknattleik Janus Daði Smárason í gær þegar Morgunblaðið leitaði fregna af honum.

Janus Daði hefur nær því ekkert leikið með Aalborg Håndbold á þessu ári eða eftir að keppni hófst á ný þar í landi að loknu Evrópumóti landsliða sem fram fór í Króatíu hvar Janus Daði tók þátt með íslenska landsliðinu.

„Ég var á leikskýrslu í tveimur leikjum Aalborg eftir EM. Annarsvegar í undanúrslitaleik í bikarkeppninni og hinsvegar gegn Meshkov Brest í Meistaradeild Evrópu 8. febrúar. Síðan hef ég ekki stigið inn á leikvöllinn,“ sagði Janus Daði.

Það sem hrjáir Janus Daða er svokallað hopparahné [jumpers knee] en þá myndast bólga undir hnéskeljarsininni [patella tendon]. Bólgur þessar eru oft erfiðar viðureignar. Janus Daði segist hafa verið sprautaður með sterum í hnéð fljótlega eftir að meiðslin voru greind en sprauturnar hafi ekki skilað tilætluðum árangri. Fyrir níu dögum gekkst Janus Daði undir svokallaða PRP-meðferð hjá læknum á Íslandi. Hún lýsir sér m.a. í að tekið var blóð úr honum, vökvi var skilinn frá og því sem eftir stendur er sprautað í sinina. Meðferðin á að flýta fyrir bata. Í versta falli skilar hún engum árangri.

Í kapphlaupi við tímann

„Nú er ég að jafna mig eftir meðferðina sem vonandi hefur skilað árangri. Það styttist í að ég geti farið að æfa af krafti á nú og láta reyna á hnéð af fullum krafti. Vonandi get ég leikið eitthvað af leikjum með Aalborg áður en deildarkeppninni í Danmörku lýkur 28. mars. Það má segja að ég sé í kapphlaupi við tímann,“ sagði Janus Daði sem gerir sér einnig vonir um að geta verið með íslenska landsliðinu þegar það tekur þátt í fjögurra liða móti í Bergen í Noregi 5.-9. apríl en það verða fyrstu leikir nýráðins landsliðsþjálfara Guðmundar Þórðar Guðmundssonar.

„Mig er farið að lengja eftir að komast inn á völlinn á nýjan leik,“ sagði Janus Daði sem hafði verið í stóru hlutverki hjá danska meistaraliðinu áður en hann meiddist og m.a. vakið athygli fyrir vasklega framgöngu með liðinu í leikjum Meistaradeildar Evrópu.

Sjá allt viðtalið við Janus Daða í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag