Fram tók 2. sætið og mætir ÍBV

Elísabet Gunnarsdóttir var markahæst hjá Fram.
Elísabet Gunnarsdóttir var markahæst hjá Fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram endar í 2. sæti Olísdeildar kvenna í handbolta eftir 28:23-sigur á ÍBV í Framhúsinu í dag. Liðin mætast því aftur í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn, en ÍBV endar i 3. sæti. Fram hefur unnið alla fjóra leiki liðanna í vetur, þrjá í deild og einn í undanúrslitum í bikarnum. 

Framkonur voru með yfirhöndina frá fyrstu mínútu og skoruðu þær sex fyrstu mörk leiksins gegn Eyjakonum sem áttu erfitt með að spila sig í færi. Fyrsta mark þeirra kom loks eftir 12 mínútur, 6:1. ÍBV breytti um vörn um miðjan hálfleikinn og gekk þá betur að stöðva sóknarleik Framara, en það reyndist þrautin þyngri að koma boltanum framhjá Guðrúnu Ósk Maríasdóttur í markinu hinum megin. Guðrún varði tíu skot í hálfleiknum.

Sandra Erlingsdóttir, besti leikmaður ÍBV á tímabilinu, náði sér engan vegin á strik í hálfleiknum og skoraði ekki mark, þó skotin hafi verið nokkuð mörg. Sandra Erlingsdóttir var hins vegar góð á vítalínunni og helsta ástæða þess að munurinn var ekki meiri en sex mörk í hálfleik, 14:8.

Fram skoraði fyrstu tvö mörk seinni hálfleiks og komst í 16:8. ÍBV náði aftur að minnka muninn í sex mörk skömmu síðar, en svo ekki söguna meir. Fram hélt áfram að bæta í eftir það og var staðan 21:13 þegar seinni hálfleikur var hálfnaður.  Þá skoraði ÍBV fjögur mörk í röð og minnkaði muninn í 21:17. Nær komust Eyjakonur hins vegar ekki og sigur Fram var ekki í hættu.

Fram 28:23 ÍBV opna loka
60. mín. Heiðrún Dís Magnúsdóttir (Fram) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert