Hef engar áhyggjur af næstu leikjum

Gísli Þorgeir að skora eitt af átta mörkum sínum í …
Gísli Þorgeir að skora eitt af átta mörkum sínum í kvöld. Ljósmynd/Valgarður

„Ég veit ekki hvort þetta var eitthvað kæruleysi hjá okkur undir lok leiksins en við hleyptum þessu upp í óþarfa spennu,“ sagði FH-ingurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson við mbl.is eftir sigurinn gegn Aftureldingu í fyrstu rimmu liðanna í úrslitakeppni úrvalsdeildar karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld.

FH fagnaði sigri, 34:32, eftir að hafa náð mest sjö marka forskoti í seinni hálfleik.

„Markvörður Aftureldingar steig upp undir lokin og þeir náðu að saxa á forskot okkar. Vörnin hjá okkur datt líka svolítið niður á lokakaflanum og Elvar reyndist okkur erfiður. Hann er frábær leikmaður og gaman að sjá hann aftur á parketinu,“ sagði Gísli Þorgeir sem var besti maður FH-liðsins í kvöld. Strákurinn, sem gengur í raðir þýska stórliðsins Kiel í sumar, skoraði 8 mörk og átti fjöldann allan af stoðsendingum í leiknum.

„Mér fannst fyrri hálfleikurinn góður hjá okkur sem og 20 fyrstu mínúturnar í seinni hálfleik. Dómgæslan hallaði aðeins á okkur á lokamínútunum en það sem mestu máli skiptir er að við lönduðum sigri og ég er ánægður með það,“ sagði Gísli Þorgeir.

FH sópaði Aftureldingu út í undanúrslitunum í fyrra og vann þá einvígi liðanna, 3:0. Sér Gísli fyrir sér að endurtaka leikinn?

„Ég ætla ekki að segja við stefnum að því að fara með þetta í oddaleik en við stefnum að sjálfsögðu að því að ná sigri í Mosfellsbænum á sunnudaginn og koma okkur í enn betri stöðu. Eins og við erum að spila í dag þá hef ég engar áhyggur af næstu leikjum,“ sagði Gísli Þorgeir, sem byrjar úrslitakeppnina með sama hætti og hann endaði hana í fyrra en hann var útnefndur besti maður úrslitakeppninnar á síðustu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert