Sögulegur árangur

Lovísa Thompson fagnar marki sínu gegn Síle.
Lovísa Thompson fagnar marki sínu gegn Síle. Ljósmynd/hungaryhandball2018.com

Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, mætir norska landsliðinu í dag í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í þessum aldursflokki. Flautað verður til leiks klukkan 16.30.

Mótið fer fram í Debrecen í Ungverjalandi. Hvernig sem leikurinn endar í dag stefnir í að íslenska liðið hafi náð betri árangri en yngri landslið kvenna hafa áður gert á stórmótum í handknattleik.

Íslenska liðið hafnaði í þriðja sæti riðlakeppninnar með sjö stig í fimm leikjum. Liðið fékk jafnmörg stig og Suður-Kóreu-liðið sem hafnaði í öðru sæti. Rússar voru efstir með fullu húsi stiga, tíu. Slóvenía, Síle og Kína voru í þremur neðstu sætum riðilsins.

Besti árangur til þessa?

Að lokinni riðlakeppni á sunnudaginn var liðunum 24 sem taka þátt í HM raðað niður í sæti samkvæmt þeim árangri sem þá lá fyrir. Samkvæmt þeirri niðuröðun var íslenska liðið með níunda besta árangurinn á mótinu til þessa af 24 þátttökuliðum. Samkvæmt þessu má reikna með að íslenska liðið keppi um níunda til tólfta sætið á mótinu tapist leikurinn við Norðmenn í dag. Vinni íslenska liðið leikinn tekur það sæti í átta liða úrslitum mótsins en svo langt hefur íslenskt kvennalið í handbolta aldrei náð á stórmóti, hvort sem litið er á árangur A-landsliðs eða yngri landsliða.

Enn athyglisverðari er árangurinn þegar litið er til þess að íslenska liðið var í neðsta styrkleikaflokki þegar dregið var í riðla, sem sagt í 21. - 24. sæti. Sú niðurröðun helgaðist af þeirri ástæðu að íslensk kvennalandslið í yngri flokkum hafa sjaldnast verið með í lokakeppni stórmóts.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert