Svellkaldur Hafþór afgreiddi Aftureldingu

Ihor Kopashynskyi skoraði sjö mörk fyrir Akureyri í dag.
Ihor Kopashynskyi skoraði sjö mörk fyrir Akureyri í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Akureyri og Afturelding mættust í Olís-deildinni í handbolta karla á Akueyri í dag en leiknum lauk með 25:22-sigri Akureyrar. Akureyri var án stiga fyrir leikinn en Mosfellingar voru á toppnum með tvo sigra og eitt jafntefli. Heimamenn í Akureyri voru betri í leiknum og unnu að lokum verðskuldaðan sigur.

Jafnt var fram í miðjan fyrri hálfleik en þá tóku heimamenn leikinn í sínar hendur. Varnarleikur þeirra var öflugur og Marius varði ágætlega fyrir aftan vörnina. Sóknin var svo keyrð á fínum kerfum sem oftast skiluðu góðum færum og mörkum. Leonid Mykhailiutenko var sérlega öflugur fyrir heimamenn í fyrri hálfleik og skoraði hann fjögur mörk. Staðan var 14:11 í hálfleik og heimamenn í ágætis málum. Munurinn hefði getað verið meiri þar sem sóknarleikur gestanna var á brauðfótum stóran hluta fyrri hálfleiks.

Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn með látum og minnkuðu strax muninn. Heimamenn voru hálf vankaðir en það var sama hvað þeir klúðruðu miklu, Mosfellingar klúðruðu þá bara sínum sóknum. Þeir fengu óteljandi færi á að jafna leikinn og í tuttugu mínútur var allt í járnum. Afturelding jafnaði loks 20:20 þegar sex mínútur lifðu og þá fór um marga í Höllinni. Einn maður hélt þó ró sinni og var það Hafþór Már Vignisson í liði heimamanna. Hann tók bara leikinn yfir og heimamenn sigldu aftur framúr. Lauk leiknum 25:22 og var fyrstu stigum Akureyringa vel fagnað í leikslok.

Akureyri 25:22 Afturelding opna loka
60. mín. Friðrik Svavarsson (Akureyri) skoraði mark Dauðafrír á línunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert