„Tryggðu okkur gul og blá jól þetta árið“

Stefán Árnason ræðir við sína menn í kvöld.
Stefán Árnason ræðir við sína menn í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Jólin koma snemma hjá KA-mönnum þetta árið en í kvöld lagði KA erkifjendur sína í Akureyri í fyrsta leik 12. umferðarinnar í Olís-deild karla. Leikurinn var æsispennandi þótt KA væri með yfirhöndina nánast frá byrjun. KA var 18:14 yfir í hálfleik og allan seinni hálfleikinn gerðu leikmenn Akureyrar sig líklega til að snúa taflinu sér í vil. Það gekk þó ekki en sigur KA hékk á bláþræði. Lokatölur urðu 26:25 eftir að Akureyri skoraði tvívegis á lokamínútunni.

Stefán Árnason, þjálfari KA, hefur eflaust verið með hraðan hjartslátt á lokakaflanum en hann gat fagnað sigri og slakað eitthvað á með sínum mönnum í klefanum eftir leik.

Hvað segirðu Stefán? Hvernig eru taugarnar?

„Nú eru þær aðeins farnar að róast, svona tíu mínútum eftir leik. Þetta varð auðvitað þvílíkur háspennuleikur eins og oftast vill verða þegar Akureyrarliðin berjast. Það er alveg sama hvað maður kemst mikið yfir, þessir leikir fara alltaf í það að verða jafnir í restina. Það er sagan svona 20-30 ár aftur í tímann. Þetta vill ráðast á endasprettinum og sem betur fer náðum við að hafa sigur. Mér fannst við eiga þetta skilið og að mínu mati vorum við betra liðið lengst af. Í fyrri hálfleik spiluðum við afbragðsvel og byggðum þá grunninn að þessum sigri.“

Stuðningsmenn KA voru búnir að fagna sigri ábyggilega tvisvar áður en leiknum lauk. Það hefði verið eins og að fá hníf í hjartastað fyrir þetta fólk og ykkur að glutra þessu niður. Það var bras fyrir ykkur að landa þessu.

„Þetta verður stundum svona. Við vorum að missa menn mikið útaf og það er erfitt að vera alltaf að spila manni færri. Við höfðum þetta, það skiptir öllu máli. Það var bras á okkur en í fyrri hálfleik þá spiluðum við frábæran sóknarleik. Átján mörk og í raun hefðum við getað skorað meira. Þessi hálfleikur er líklega okkar besti hálfleikur í allan vetur og allir sem spiluðu voru góðir. Í seinni hálfleik þétti Akureyri vörnina. Þeir eru með mjög góða varnarmenn. Sóknin okkar fór að hiksta og við skoruðum bara átta mörk í seinni hálfleik. Fyrir vikið náum við aldrei að slíta þá af okkur og þetta varð bras. Við hefðum mátt finna betri lausnir og vera úrræðabetri í seinni hálfleik. Það kom smá kafli í stöðunni 23:21. Þá gerum við tvö góð mörk, komumst í fjögurra marka mun og fengum víti, sem fór forgörðum. Þar hefðum við kannski getað gengið frá leiknum.“

Andri Snær klúðraði tveimur vítum á lokakaflanum. Verður vítaæfing hjá honum í fyrramálið?

„Nei, nei. Hann fer aftur á punktinn í næsta leik. Við höfum engar áhyggjur af honum. Hann er okkar langbesta skytta og við berum fullt traust til hans.“

Það var gaman að fylgjast með áhorfendum í leiknum. Það var mikið stuð á pöllunum og gríðarleg stemning.

„Ég er sammála því. Þegar strákarnir byrjuðu að hita upp 45 mínútum fyrir leik þá voru komnir gríðarmargir KA-menn. Það var gríðarleg stemning í upphituninni og þegar liðin gengu svo inn á völlinn þá virtust KA-stuðningsmenn vera miklu fleiri. Það heyrðist meira í þeim. Ég get varla lýst því hvað ég er ánægður með okkar fólk, að hafa svarað kalli svona vel. Við þurftum virkilega á þessu að halda. Þetta voru tvö stig sem við ætluðum okkur en það hefði ekki verið séns að ná þeim án þess að fá þennan stuðning. Þetta hvatti okkur áfram og ég sá í upphafi leiks að stuðningurinn tók stressið úr strákunum. Þeim fór að líða betur. Það voru öflugir KA-menn í stúkunni sem tryggðu okkur gul og blá jól þetta árið“ sagði Stefán að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert