Geri mér grein fyrir því að þetta verður erfitt

Aron Kristjánsson.
Aron Kristjánsson. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrstu leikir íslenska karlalandsliðsins í handknattleik í undirbúningi þess fyrir heimsmeistaramótið sem fram fer í Danmörku og Þýskalandi í janúr fara fram í Laugardalshöllinni um helgina. Ísland mætir liði Barein í tveimur leikjum, sá fyrri verður í kvöld klukkan 19.30 og sá síðari á sunnudaginn.

Aron Kristjánsson, fyrrverandi þjálfari íslenska landsliðsins, er landsliðsþjálfari Barein en hann tók við þjálfun liðsins í lok mars af Guðmundi Þórði Guðmundssyni, núverandi þjálfara íslenska landsliðsins. Ísland og Barein eru í sama riðli á HM ásamt Japan, sem Dagur Sigurðsson stýrir, Króatíu, Spáni og Makedóníu.

„Það verður gaman að mæta íslenska landsliðinu hér heima en ég geri mér grein fyrir því að þetta verður mjög erfitt. Það er svolítið sérstakt að mæta liði sem við erum með í riðli á HM en það var fyrir löngu búið að ákveða þessa leiki og áður en dregið var í riðla. Ég tel að það sé verra fyrir okkur að spila þessa leiki þar sem við erum litla liðið í þessum viðureignum,“ sagði Aron í samtali við Morgunblaðið í gær.

Leikmannahópur Barein kom til landsins á miðnætti í gærkvöld eftir 25 tíma ferðalag og leikmenn Barein gætu orðið frekar þungir á sér í kvöld.

Nánar er rætt við Aron í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert