Fimm daga sprettur um sæti í undanúrslitum

Einvígi FH og ÍBV gæti orðið það tvísýnasta í 8 ...
Einvígi FH og ÍBV gæti orðið það tvísýnasta í 8 liða úrslitunum. Þremur stigum munaði á liðunum í deildinni og þau unnu hvort annað á heimavelli í vetur eftir hörkuleiki þar sem eitt og tvö mörk skildu þau að.

Eftir hálfsmánaðarhlé frá kappleikjum taka leikmenn liðanna átta sem komust í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla upp þráðinn í dag. Fjórir leikir, heil umferð, verða á dagskrá og ljóst að handknattleiksáhugafólk má hafa sig allt við til þess að fylgjast með leikjum dagsins.

Næsta umferð verður á mánudaginn og sú þriðja og síðasta á miðvikudagskvöldið, ef til þriðju leikja kemur. Vinna þarf tvo leiki í átta liða úrslitum til þess að öðlast sæti í undanúrslitum. Átta liða úrslit tekur fljótt af eftir nokkurn undirbúningstíma sem gefinn var vegna leikja landsliðsins í undankeppni Evrópumótsins.

Leikmenn Hauka og Stjörnunnar ríða á vaðið í Schenkerhöllinni á Ásvöllum eftir hádegið í dag. Haukar eru nýkrýndir deildarmeistarar. Þeir sigldu í gegnum tímabilið af öryggi og töpuðu aðeins þremur leikjum af 22. Ekkert bendir til þess að Haukar hafi ástæðu til þess að gefa eftir í úrslitakeppninni, a.m.k. ekki í átta liða úrslitum með sinn vaskasta hóp kláran í slaginn.

Baráttuglaðir ÍR-ingar

Rimma Selfoss og ÍR verður vafalaust jafnari en margir telja. Fyrsti leikurinn verður í Hleðsluhöllinni á Selfossi í dag og hefst kl. 17. ÍR-ingar eru með baráttuglatt lið sem gefur sjaldan tommu eftir. Þar liggur styrkur liðsins fyrst og fremst. Hins vegar er Selfossliðið fyrir fram talið sterkara enda skildu 15 stig liðin að þegar upp var staðið að deildarkeppninni lokinni.

Sjá forspjall um úrslitakeppnina í handbolta karla í heild á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »