Aron tekur daginn snemma

Aron Pálmarsson sækir að vörn Aalborg um nýliðna helgi.
Aron Pálmarsson sækir að vörn Aalborg um nýliðna helgi. Ljósmynd/Barcelona

Aron Pálmarsson og félagar hans í spænska meistaraliðinu Barcelona taka daginn snemma því liðið tekur á móti Sinfin í spænsku 1. deildinni í handbolta klukkan 12 eða klukkan 11 að íslenskum tíma.

Aðgangur að leiknum er ókeypis og leiktíminn er liður í því að kynna handboltann fyrir skólakrökkum og íþróttafélögum. Meirihlutinn af áhorfendum verða því strákar og stelpur sem fá tækifæri til að berja stórstjörnur Barcelona augum.

Barcelona hefur unnið alla tíu leiki sína í deildinni en Sinfin er í 7. sæti og er 11 stigum á eftir Börsungum.

Aron átti frábæran leik um nýliðna helgi í sigri liðsins á móti danska liðinu Aalborg í Meistaradeildinni. Það var sjöundi sigurleikur Barcelona í röð en liðið er með 14 stig í A-riðlinum eftir átta leiki eins og Paris SG.

mbl.is