Elverum með aðra hönd á bikarnum

Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði sex mörk úr sex skotum í …
Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði sex mörk úr sex skotum í kvöld. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Sigvaldi Björn Guðjónsson átti mjög góðan leik fyrir Elverum þegar liðið vann þriggja marka heimasigur gegn Drammen í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld. Leiknum lauk með 33:30-sigri Elverum en Sigvaldi skoraði sex mörk úr sex skotum í leiknum og var næstmarkahæstur í liði Elverum.

Liðunum gekk illa að skora á fyrstu mínútum leiksins en mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Drammen náði mest tveggja marka forskoti í fyrri hálfleik og Drammen leiddi með einu marki í hálfleik. Jafnræðið hélst á milli liðanna í síðari hálfleik og það var ekki fyrr en fimm mínútur voru til leiksloka sem Elverum tókst loks að slíta sig frá Drammen.

Óskar Ólafsson komst ekki á blað hjá Drammen sem er í þriðja sæti deildarinnar með 24 stig eftir sautján umferðir. Elverum er hins vegar með 30 stig á toppi deildarinnar og hefur nú sex stiga forskot á Arendal og Drammen. Elverum er komið með aðra hönd á deildarmeistaratitilinn þegar fimm umferðir eru eftir af deildarkeppninni

mbl.is