Munum koma enn sterkari til baka

Adam Haukur tekur vel á Kára Kristjáni Kristjánssyni í leiknum …
Adam Haukur tekur vel á Kára Kristjáni Kristjánssyni í leiknum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, var augljóslega ekki sáttur við leik sinna manna í dag er liðið heimsótti ÍBV í Olís-deild karla í handbolta. Liðið tapaði með átta marka mun 36:28 eftir að staðan var 21:13 í hálfleik. Þetta er áttunda tap Hauka í síðustu 9 leikjum í Vestmannaeyjum, hinn leikurinn var jafntefli.

Þrátt fyrir tapið var Gunnar alveg viss um að Haukarnir myndu nýta sér mótlætið og koma af krafti inn í lokakafla mótsins.

„Varnarleikurinn í fyrri hálfleik var ekki til staðar, ég er mjög svekktur með það hvernig við vorum, við vorum miklu passívari heldur en við ætluðum okkur. Við náðum aldrei að klukka þá og það situr í mér hve hræðilegir við vorum varnarlega í fyrri hálfleik,“ sagði Gunnar en liðið fékk á sig 21 mark í fyrri hálfleik, þetta er það langmesta sem Haukar hafa fengið á sig í fyrri hálfleik á leiktíðinni.

„Heilt yfir var sóknarleikurinn góður, við erum að skora 28 mörk og getum ekki kvartað undan því, við fáum líka fullt af dauðafærum í viðbót ofan á það. Fyrir mér var þetta kaflinn þegar við vorum 13:10 undir í fyrri hálfleik þar sem við missum agann, þá koma tæknifeilar og þeir refsuðu um hæl. Þar fórum við aðeins fram úr okkur, heilt yfir var sóknarleikurinn ekki galinn en varnarlega erum við daprir, sérstaklega í fyrri hálfleik. Það þurfum við að skoða vel.“

Leikurinn tapast á vörninni

Leikurinn var gríðarlega hraður í upphafi og náðu Eyjamenn að refsa fyrir öll sóknarmistök Hauka eins og Gunnar sagði.

„Þetta voru fjórir eða fimm slæmir tæknifeilar á þessum kafla sem voru mjög svekkjandi. Mér fannst við nefnilega spila góðan sóknarleik næstum allan leikinn, ég er svekktur yfir þessum kafla sem ég var að nefna, en eins og ég sagði er þetta mest varnarlega sem við töpum þessu.“

Markverðir Hauka voru ekki öflugir í dag, en gamla tuggan segir að vörn og markvarsla haldist í hendur.

„Þeir áttu erfiðan dag í dag, þetta hangir oft saman, sérstaklega þegar varnarleikurinn er ekki góður. Markverðirnir voru líka að missa bolta sem þeir vilja taka, þetta hangir saman og þegar stuðningurinn frá vörninni er ekki mikill þá eru markverðirnir ekki í öfundsverðu hlutverki.“

Gunnar Magnússon á hliðarlínunni í Eyjum í dag.
Gunnar Magnússon á hliðarlínunni í Eyjum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Leikmenn Hauka voru á köflum hræðilegir gegn Val í síðustu umferð en það stefndi í mikla bætingu á leik liðsins eftir fyrstu mínúturnar í leik dagsins.

„Svo er allt undir control hjá okkur og staðan 13:10, en þá kemur þessi kafli sem við missum þá frá okkur. Þeir ganga auðvitað á lagið, á þessum kafla hikstuðum við sóknarlega, sem er ekki óeðlilegt á móti ÍBV, en vörnin hélt ekki heldur,“ sagði Gunnar en hvernig settu Gunnar og teymi hans upp síðari hálfleikinn?

„Við horfðum inn á við og ætluðum fyrir okkur sjálfa að bæta okkar leik og sýna karakter. Við ætluðum að sýna samstöðu og reyna að vinna okkur til baka inn í leikinn, í sjálfu sér er seinni hálfleikurinn alls ekki slæmur, það er í fyrri hálfleik sem við töpum þessum leik.“

Þessi lið mætast í mikilvægum leikjum

Haukar hafa ekki farið í frægðarför til Vestmannaeyja í langan tíma og tapað átta af síðustu 9 leikjum sínum í Eyjum, hinn fór jafntefli.

„Ertu með tölfræðina milli sömu liða á Ásvöllum?“ spurði Gunnar en Haukar hafa unnið fjóra af síðustu fimm heimaleikjum, hinn leikurinn fór jafntefli, fyrr á leiktíðinni.

„Þessi lið mætast alltaf í öllum úrslitakeppnum og öllum bikarkeppnum og allt. Ég er ekki með tölfræðina á hreinu en ég myndi giska á að þetta væri mjög jafnt. Heimavöllurinn hefur verið drjúgur hjá báðum liðum, síðustu ár.“

Haukar hafa tapað síðustu þremur deildarleikjum, allt á móti mjög sterkum liðum, sem spáð var efstu þremur sætunum fyrir mót.

„Þetta eru töp á móti ÍBV, FH og Val, sem eru öll að spila mjög vel á meðan við erum að spila illa. Þegar á móti blæs þá brettum við upp ermar og leggjum harðar að okkur. Við nýtum mótlætið núna til að koma sterkari til baka. Við vinnum okkur út úr þessu saman, það er smá basl núna. Þegar við lendum í mótlæti þá þéttum við raðirnar og stöndum þétt saman. Við vinnum okkur út úr þessu og komum enn sterkari til leiks.“

Búið er að gefa út að Gunnar taki við Aftureldingu eftir leiktíðina og Aron Kristjánsson tekur við Haukum, hefur Gunnar áhyggjur af því að ná ekki jafn vel til leikmanna og fyrr á leiktíðinni?

„Nei, ég hef engar áhyggjur af því, strákarnir eru 100% á bak við mig og við erum þétt heild. Við erum í basli núna en það gerist, ÍBV var í basli fyrir jól og Valur og FH. Nú erum við í smá basli og það reynir á okkur alla, þegar maður lendir í mótlæti þá kemur maður sterkari til baka og vinnum okkur út úr því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert