Sigvaldi er nýr fyrirliði Kolstad

Sigvaldi Björn Guðjónsson verður fyrirliði spennandi liðs Kolstad í Noregi.
Sigvaldi Björn Guðjónsson verður fyrirliði spennandi liðs Kolstad í Noregi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Sigvaldi Björn Guðjónsson, landsliðsmaður í handknattleik, hefur verið útnefndur fyrirliði norska liðsins Kolstad ásamt Norðmanninum Vetle Eck Aga.

Kolstad er stórhuga enda búið að styrkja sig með Sigvalda og Aga ásamt Janusi Daða Smárasyni og norsku landsliðsmönnunum Magnus Gullerud og Torbjörn Bergerud í sumar.

Þá gengur norska stórstjarnan Sander Sagosen til liðs við félagið næsta sumar og því útlit fyrir að stórveldi sé í smíðum.

Sigvaldi og Aga verða fyrirliðar í sameiningu en báðir eru þeir 28 ára gamlir.

Sigvaldi kom frá Kielce í sumar en lék þar á undan með Elverum í Noregi og var fyrirliði liðsins á síðara tímabili sínu þar, tímabilið 2019/2020.

Hann er búinn að jafna sig á meiðslum sem hann varð fyrir snemma á árinu og urðu til þess að Sigvaldi missti af síðari hluta tímabilsins með Kielce.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert