Langt síðan við höfum séð 20 varin skot

Erlingur Richardsson á hliðarlínunni í kvöld.
Erlingur Richardsson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Erlingur Richardsson, var sáttur með sigur sinna manna í ÍBV er þeir fengu ÍR-inga í heimsókn til Vestmannaeyja í dag. Lokatölur 43:28 í miklum markaleik, eins og oft vill verða í leikjum ÍBV.

„Ég held að við höfum verið nokkuð vel undirbúnir fyrir sóknarleikinn hjá þeim, því þeir hafa frábærar skyttur í liðinu, sem léku virkilega vel á móti Haukum. Við þurftum að vera tilbúnir og var markvarslan og vörnin í fyrri hálfleik góð ásamt hraðaupphlaupum. Við náðum í 6-7 marka forystu sem við náðum að halda, það varð til þess að við náðum að sigra leikinn.“

Í síðasta leik ÍBV komu 70 mörk en í dag voru þau 71, það er því líklegt að ÍBV verði aftur í miklum markaleikjum eins og á síðustu leiktíð. Er þetta handboltinn sem Eyjamenn vilja spila?

„Já, við erum ekki lengi að stilla upp og erum kannski of fljótir stundum að fara af stað, þá verður maður brjálaður en svo ánægður þegar við náum að skora. Sóknarleikurinn er flottur og við erum með marga spræka stráka, við höfum verið að brasa með pússluspilið í varnarleiknum, sérstaklega þegar Arnór og Róbert eru frá.“

Eyjamenn voru sterkir þegar þeir náðu að stilla upp í vörn en flest mörk ÍR-inga komu eftir hraða miðju.

„Þeir voru greinilega að spila upp á það, við vorum þó nokkuð góðir að stilla okkur upp og hlaupa til baka. Það er helst þegar liðin eru í undirtölu í sókn, þá er gott að keyra, flest liðin gera það líka. Þetta eru fyrstu leikir í deild og enn verið að stilla saman strengi, það þarf að laga og fínpússa hluti hér og þar.“

Björn Viðar Björnsson hætti eftir síðasta tímabil en Petar Jokanovic mun þá bera meiri ábyrgð á markvarðarstöðunni heldur en síðustu ár, þá eru ungir markverðir til vara.

„Við erum með Petar og þrjá yngri, Andri Sigmarsson er meiddur. Við erum með Einar, Esra og Andra. Esra kom vel inn í dag með einhver fjögur skot varin, við erum með tuttugu skot varin og það er langt síðan við höfum séð þá tölu. Það eru vissulega margar sóknir í leiknum en við tökum þetta ekki af þeim, þetta var vel gert og vel varið. Það er eitthvað sem við þurfum líka.“

Eyjamönnum er af flestum spáð öðru sæti deildarinnar, sér Erlingur deildina spilast þannig að Valur verði í efsta sætinu og ÍBV fylgi þar á eftir?

„Það verður eflaust þannig, Valur pottþétt efstir en ég held að þetta verði samt jafnara en menn hafa verið að spá. Þó svo að ÍR hafi spilað illa í dag þá sýndu þeir frábæran leik á móti Haukum, þeir eiga bara eftir að fínstilla sig og verða betri undir stjórn Bjarna sem er að gera flotta hluti. Þetta eru flottir strákar og flottar skyttur til dæmis, þeir munu verða sterkari og það er mín spá að þetta verði jafnara en menn hafa spáð fyrir. Við ætlum auðvitað að vera einhvers staðar í toppnum.“

ÍBV náði góðu forskoti snemma í leiknum en Erlingur var aldrei í rónni og vildi alltaf fá meira frá sínum mönnum, hvað var það svona helst sem Erlingur vildi sjá betra?

„Við erum til dæmis í síðustu sókn fyrir hálfleik með 30 sekúndur eftir, þar eigum við að vera klókir og stilla upp til dæmis. Það eru svona hlutir þar sem við eigum að geta gert betur, menn þurfa alltaf að vera á tánum. Við höfum alveg verið með forystu og misst hana útaf einhverju kæruleysi, þannig við þurfum að æfa okkur í því. Það að halda haus í gegnum svona leiki og sýna áfram góða frammistöðu alveg sama hvernig staðan er. Það þarf að bera virðingu fyrir leiknum og andstæðingnum, þú þarft alltaf að vera tilbúinn og taka á, annað er bara kæruleysi og hroki.“

mbl.is