Bjartsýnn þrátt fyrir þetta tap

Erna Guðlaug Gunnarsdóttir sækir að marki Vals í leiknum í …
Erna Guðlaug Gunnarsdóttir sækir að marki Vals í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stefán Arnarson, þjálfari Fram, var eðlilega nokkuð svekktur eftir 27:22-tap gegn Val í Olís deild kvenna í handbolta í kvöld.

„Við erum aldrei sátt með að tapa en gerðum okkur grein fyrir að þetta yrði erfiður leikur. Vals-liðið er besta liðið í dag og við erum að slípa liðið til með nýjum leikmönnum. Ég er ánægður með margt en við áttum tvo slæma kafla, í lok fyrri hálfleiks og lok seinni hálfleiks sem fóru með leikinn.“

Eins og Stefán kemur inná byrjaði Fram-liðið báða hálfleikana betur en svo var eins og Valur næði betri tökum þegar leið á.

„Við erum bara að slípa leikmenn inn í nýjar stöður og við gerum mistök sem við eigum ekki að gera venjulega. Það skýrist bara af því að við erum að slípa liðið til en það var margt jákvætt í leiknum og ég held að við eigum eftir að bæta okkur. Þá verður þetta í góðu lagi.“

Madeleine Lindholm og Tamara Jovicevic léku báðar sinn fyrsta leik fyrir Fram í kvöld en þær hafa ekki náð mörgum æfingum. Þrátt fyrir það litu þær vel út á meðan þær voru inni á vellinum.

„Þær er náttúrlega bara búnar með tvær æfingar og það er varla hægt að dæma þær af því. Það þarf að gefa þeim allavega tvo mánuði og þá getum við talað saman um þá.“

Fram og Valur hafa auðvitað verið tvö af allra bestu liðum landsins undanfarin ár. Nú er Fram lent fjórum stigum á eftir Val eftir einungis þrjár umferðir.

„Við erum alltaf að pæla í toppbaráttu en við þurfum fyrst og fremst að laga liðið. Eftir þennan leik sé ég að við getum það og er bara bjartsýnn þrátt fyrir þetta tap í kvöld.

Stefán Arnarson, þjálfari Fram.
Stefán Arnarson, þjálfari Fram. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert