Alfreð skrefi nær Ólympíuleikunum

Alfreð Gíslason og þýska liðið unnu stórsigur í dag.
Alfreð Gíslason og þýska liðið unnu stórsigur í dag. AFP/Ina Fassbender

Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í þýska landsliðinu í handbolta tóku stórt skref í áttina að Ólympíuleikunum í París í sumar með sigri á Alsír, 41:29, í fyrsta leik liðanna í undankeppni leikanna.

Er riðill þjóðanna leikinn í Hannover í Þýskalandi og Alfreð og lærisveinar hans því á heimavelli.

Staðan í hálfleik var 16:13 og stungu Þjóðverjar af í seinni hálfleik og unnu að lokum gríðarlega öruggan sigur. Renars Uscins skoraði tíu mörk fyrir Þýskaland.

Austurríki og Króatía eru einnig í riðlinum og mætast síðar í kvöld. Dagur Sigurðsson stýrir Króötum þá í fyrsta skipti en hann hefur einnig stýrt Þýskalandi og Austurríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert