Sviss fékk seinna boðskortið á HM

Sviss fær síðasta sætið sem til boða var á heimsmeistaramóti karla árið 2025 en Alþjóða handknattleikssambandið tilkynnti þetta í dag.

Áður hafði Bandaríkjunum verið úthlutað öðru þeirra tveggja boðssæta sem voru á lausu, þar sem bandaríska liðið verður í gestgjafahlutverki á Ólympíuleikunum í Los Angeles árið 2028.

Sviss fékk sætið þar sem liðið var næst því að komast á HM af þeim liðum sem féllu út í umspilinu fyrr í þessum mánuði en Svisslendingar töpuðu fyrir Slóvenum í vítakeppni eftir að markatala liðanna í tveimur leikjum var jöfn.

Þar með verða þátttökuþjóðirnar þessar á HM 2025 sem haldið er í Króatíu, Danmörku og Noregi:

Evrópa: Austurríki, Króatía, Tékkland, Danmörk, Frakkland, Svíþjóð, Þýskaland, Ungverjaland, Ísland, Ítalía, Norður-Makedónía, Holland, Noregur, Pólland, Portúgal, Slóvenía, Spánn, Sviss.

Afríka: Alsír, Grænhöfðaeyjar, Gínea, Egyptaland, Túnis.

Asía: Barein, Kúveit, Japan, Katar.

Suður- og Mið-Ameríka: Argentína, Brasilía, Síle.

Norður-Ameríka og Karíbahafið: Kúba og Bandaríkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert