Keppni er hafin í Víðidal

Landsmót hestamanna í Víðidal.
Landsmót hestamanna í Víðidal. mbl/Arnþór Birkisson

Annar dagur Landsmóts er hafinn á svæði Fáks í Víðidal. Nú fer fram keppni gæðingahesta í B-flokki á aðalvellinum. Sigurvegari í B-flokki á Landsmóti 2016 var Nökkvi frá Syðra-Skörðugili sem etur aftur kappi í dag. Eftir hádegi fer fram sérstök forkeppni í ungmennaflokki, þ.e. flokki ungmenna á aldrinum 18-21 árs. Alls eru 89 knapar í ár í ungmennaflokki.

Samhliða fara fram kynbótasýningar á kynbótavellinum þar sem sýndar verða fjögurra vetra hryssur og fimm vetra hryssur. Dagskrá dagsins á kynbótavellinum lýkur með kynbótasýningu á sex vetra hryssum. Alls hafa 170 kynbótahross unnið sér inn þátttökurétt á mótinu í ár.

Í vikunni munu fara fram fróðlegir fyrirlestrar á vegum Horses of Iceland í tjaldi þeirra á svæðinu. Í dag mun Vilfríður Sæþórsdóttir flytja fyrirlesturinn „Líkamlegar mælingar á knöpum“, en hún er meistaranemi í íþróttavísindum og þjálfun.

mbl.is