Argentína í 8-liða úrslit eftir sigur á Ástralíu í hörkuleik

Argentínumenn fagna marki Julian Álvarez í kvöld.
Argentínumenn fagna marki Julian Álvarez í kvöld. AFP/Franck Fife

Argentína tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum heimsmeistaramóts karla í fótbolta með 2:1-sigri á Ástralíu í Al Rayyan í Katar í kvöld.

Lionel Messi kom Argentínu yfir á 35. mínútu með fallegu skoti úr teignum og Julian Álvarez tvöfaldaði forystuna á 57. mínútu. Ástralir minnkuðu svo muninn með sjálfsmarki frá Enzo Fernández en varamaðurinn Craig Goodwin átti þá skot sem fór af honum og í netið.

Argentína vann C-riðil keppninnar en Ástralía endaði í öðru sæti D-riðils. Argentína mætir Hollandi 9. desember í 8-liða úrslitunum.

Lionel Messi fagnar því að hafa komið Argentínu yfir í …
Lionel Messi fagnar því að hafa komið Argentínu yfir í leiknum. AFP/Odd Andersen

Ástralir byrjuðu leikinn óvænt betur og ógnuðu meira fyrsta hálftímann. Liðið náði þó ekki að skapa sér nein alvöru færi en hélt samt sem áður vel í boltann og átti oft fína spilkafla. Það var þó Argentína sem skoraði fyrsta markið á 35. mínútu og að sjálfsögðu var það Lionel Messi sem skoraði. Hann fékk boltann þá í teignum og kom Argentínu í 1:0 með fallegu skoti með grasinu. Markið kom svo gott sem upp úr engu en þetta var ekki fyrsta markið sem Messi býr til úr engu á ferlinum.

Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og var staðan því 1:0 þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Á 57. mínútu tvöfaldaði svo Julian Álvarez forystu Argentínu. Hann nýtti sér þá skelfileg mistök Mat Ryan markvarðar Ástralíu þegar hann hirti af honum boltann og skoraði í opið mark.

Allt leit út fyrir að Argentína væri að fara að sigla þægilegum sigri í höfn en á 77. mínútu átti varamaðurinn Craig Goodwin skot sem fór af Enzo Fernández og í netið. Staðan því skyndilega orðin 2:1 en þetta mark kom svo sannarlega eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Örskömmu síðar átti svo vinstri bakvörður Ástrala, Aziz Behich, magnaðan sprett í gegnum alla vörn Argentínumanna og inn á teiginn en í þann mund er hann lét vaða kastaði Lisandro Martínez sér fyrir skotið og bjargaði með stórkostlegri tæklingu.

Þegar um 20 sekúndur voru eftir af uppgefnum uppbótartíma fékk hinn 18 ára gamli Garang Kuol svo gullið tækifæri til að knýja fram framlengingu þegar boltinn féll fyrir fætur hans í teignum en Emiliano Martinez sá við honum með góðri markvörslu.

Argentínumenn stóðust því árásir Ástrala af sér og eru því annað liðið til að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitunum. Á morgun mætast Frakkland og Pólland annars vegar og England og Senegal hins vegar.

Lionel Messi með boltann í leiknum. Ástralinn Aaron Mooy er …
Lionel Messi með boltann í leiknum. Ástralinn Aaron Mooy er til varnar. AFP/Franck Fife

Lið Argentínu:
Mark: Emiliano Martinez.
Vörn: Nahuel Molina (Gonzalo Montiel 80.), Cristian Romero, Nicolás Otamendi, Marcos Acuna (Nicolás Tagliafico 72.).
Miðja: Rodrigo De Paul, Enzo Fernández, Alexis Mac Allister (Exequiel Palacios 80.).
Sókn: Lionel Messi, Julian Álvarez (Lautaro Martinez 72.), Papu Gomez (Lisandro Martinez 50.).

Lið Ástralíu:
Mark: Mat Ryan.
Vörn: Milos Degenek (Fran Karacic 72.), Harry Souttar, Kye Rowles, Aziz Behich.
Miðja: Matthew Leckie (Garang Kuol 72.), Aaron Mooy, Jackson Irvine, Keanu Baccus (Ajdin Hrustic 59.).
Sókn: Riley McGree (Craig Goodwin 59.), Mitchell Duke (Jamie Maclaren 72.).

Lionel Messi hitar upp fyrir leikinn ásamt liðsfélögum sínum.
Lionel Messi hitar upp fyrir leikinn ásamt liðsfélögum sínum. AFP/Glyn Kirk
mbl.is