Til fyrirmyndar gegn Barein

Hreiðar Levý Guðmundsson þekkir það vel að spila á stórmótum.
Hreiðar Levý Guðmundsson þekkir það vel að spila á stórmótum. Ljósmynd/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Mér fannst frammistaðan vera til fyrirmyndar. Hún gat í raun ekki verið betri. Allir stóðu sig frábærlega og tóku verkefnið alvarlega enda lagði Gummi Gumm áherslu á að ekkert vanmat yrði. Hann er einn besti þjálfari sem ég hef haft upp á það að gera að vanmeta aldrei einn eða neinn. Alveg sama hvaða lið það voru,“ sagði Hreiðar Levý Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður og einn af silfurdrengjunum í Peking 2008, þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær um leikinn við Barein á HM.

„Bjöggi var flottur í markinu og sóknin var framúrskarandi þótt reyndar sé styrkleikamunur á liðunum. Liðið var með um 90% skotnýtingu fram eftir leik,“ sagði Hreiðar og hann telur að leikurinn gæti hafa kveikt í hans gamla félaga, Björgvini Páli Gústavssyni. „Já þetta mun gera það og ég held að hann verði flottur það sem eftir er. Það er gott að fá svona leik þar sem hann er með um 50% markvörslu. Slíkt gefur sjálfstraust og rétta taktinn en maður þarf stundum að finna fyrir því að fá boltann í sig. Bjöggi er með þetta allt og kannski er þetta bara spurning um smá sjálfstraust. Vonandi er það komið núna og hann loki markinu það sem eftir er.“

Spurður hvort ekki sé einkennilegt til þess að hugsa að Björgvin sé elstur í liðinu á HM getur Hreiðar ekki neitað því.

„Jú það er það og hann er eini silfurdrengurinn sem er með. Um leið er það áminning fyrir mann sjálfan um hversu gamall maður er orðinn þótt maður gleymi því oft,“ sagði Hreiðar Levý ennfremur en hann ver mark Gróttu í Olís-deildinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka