Danski dómarinn viðurkenndi stór mistök

Króatar voru allt annað en sáttir í leikslok.
Króatar voru allt annað en sáttir í leikslok. AFP

Danski handboltadómarinn Martin Gjeding er búinn að viðurkenna afdrifarík mistök sín er hann dæmdi leik Þýskalands og Króatíu ásamt kollega sínum Mads Hansen á HM karla í gær. 

Dómaraparið dæmdi kolrangan ruðning á Króata, einni og hálfri mínútu fyrir leikslok í stöðunni 21:20 fyrir Þýskalandi. Í stað þess að Króatar gætu jafnað skoruðu Þjóðverjar hinum megin og tryggðu sér sigur og sæti í undanúrslitum á kostnað Króata. 

Í kjölfarið varð allt vitlaust í herbúðum Króata og þjálfari liðsins, Lino Cerv­ar, sagði m.a. að dönsku dómararnir ættu heima í fangelsi, frekar en á handboltavellinum. Gjeding viðurkenndi mistök sín í viðtali við TV2 í Danmörku. 

„Ein af skilgreiningum ruðnings er að varnarmaðurinn má ekki vera á ferðinni og sóknarmaðurinn æðir á hann. Þetta var ekki svoleiðis. Ég þurfti ekki að horfa oft á þetta á myndbandi til að átta mig á að ég gerði mistök,“ sagði Gjeding. 

„Við sváfum ekki vel í nótt og gerum það örugglega ekki heldur á morgun. Það er ekki gaman að vita af því hversu dýrkeypt þetta var. Við verðum að lifa með þessu. Það er mikil pressa á okkur,“ bætti hann við. 

mbl.is