Vont ef ég væri ekki bjartsýnn

Rúnar Páll Sigmundsson á hliðarlínunni í kvöld.
Rúnar Páll Sigmundsson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Stórafmælisbarnið Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, telur að leikurinn gegn Fram hafi tapast á 20 mínútum í fyrri hálfleik. 

Fram vann Fylki, 2:1, í 5. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu. Fylkisliðið er því á botninum með eitt stig. 

Rúnar Páll varð fimmtugur í dag og því stór dagur hjá þjálfaranum. 

„Jafnræði var á meðal liðanna bróðurpart leiksins. Við töpuðum leiknum á einhverjum tuttugu mínútum í fyrri hálfleik. 

Eftir að Óli [Ólafur Kristófer Helgason] ver vítið þá komust þeir auðveldlega í gegnum okkur, við vorum sundurslitnir. Við töluðum um það í hálfleik. 

Framararnir héldu og biðu bara í seinni hálfleik, leikurinn fór fram á vallarhelmingi þeirra. Við fengum nokkrar ágætis sóknir og færi undir blálokin. 

Ég veit ekki alveg hvað gerist á þessum tuttugu mínútum. Ef við ætlum að hápressa sem lið verða allir að gera það, nægir ekki að einhverjir átta leikmenn geri það. 

Það var ábótavant í fyrri hálfleik. Við vorum langt frá mönnum og duttum úr stöðum,“ sagði Rúnar í samtali við mbl.is. 

Væri mjög vont

Eins og áður kom fram er Fylkisliðið í neðsta sæti deildarinnar með eitt stig. Rúnar Páll er þó kokhraustur.  

„Ég er bjartsýnn. Væri mjög vont ef að ég væri ekki bjartsýnn. Ég hef trú á þessu liði og við verðum að halda áfram. Við erum ekki að vinna leiki og skorum lítið. 

Við höfum hins vegar verið að spila vel hingað til og verðum að halda því áfram.“

Rúnar Kristinsson á hliðarlínunni í kvöld.
Rúnar Kristinsson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Rúnar Kristinsson nafni og þjálfari Fram færði Rúnari Páli gjöf í tilefni fimmtugsafmælisins. Rúnar var sáttur við gjöfina. 

„Fallegt af Rúnari að gefa mér gjöf. Ég þakka honum kærlega fyrir það,“ bætti Rúnar Páll við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert