Létum berja okkur niður

Kári Jónsson í leiknum í kvöld.
Kári Jónsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Þeir komu mikið tilbúnari í leikinn og við létum berja okkur niður. Þeir yfirspiluðu okkur og við gerðum ekkert í því,“ sagði Kári Jónsson, leikmaður Hauka, eftir 85:75-tap gegn Tindastóli í Maltbikarnum í kvöld. Hann segir tilefnið ekki hafa verið of stórt fyrir leikmenn Hauka. 

„Við höfum flestir spilað stóra leiki oft áður og það er ekkert nýtt fyrir okkur að spila við Tindastól í stórum leikjum. Við vissum að þetta yrði hörkuleikur en samt brenndum við okkur á þessu.“

Kári segir erfitt að elta leikinn allan tímann, en Tindastóll var yfir nánast allan leikinn. 

„Við erum mjög góðir og við létum ekki rústa okkur. Það munaði ekki miklu á að við gætum gert þetta að alvöruleik. Það tók of mikla orku að vera að narta í hælana á þeim allan leikinn. Við vorum aldrei tilbúnir í að taka þetta þetta skref til að komast yfir. Við sættum okkur bara við að elta.“

Sigtryggur Arnar Björnsson skoraði 35 stig í leiknum og réðu Haukarnir illa við hann. 

„Hann komst í gír snemma og hitti vel, þá er mjög erfitt að stoppa hann. Hann setti niður erfið skot, en við hefðum átt að gera mikið betur gegn honum,“ sagði Kári að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert