Íhugaði að segja þetta gott

Jón Arnór Stefánsson skrifaði undir nýjan samning við KR í …
Jón Arnór Stefánsson skrifaði undir nýjan samning við KR í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var eiginlega löngu ákveðið. Mér finnst ennþá gaman í körfubolta og ég var í raun bara ekki tilbúinn að hætta alveg strax,“ sagði körfuknattleikskappinn Jón Arnór Stefánsson í samtali við mbl.is í dag en hann skrifaði undir tveggja ára samning við KR nú í hádeginu.

„KR er lið sem er alltaf í baráttu um titilinn og mig langar að taka þátt í því og ég vil hjálpa liðinu eins og ég get. Það er mjög stórt fyrir félagið að framlengja við Kristófer og ég á von á því að þetta verði hans síðasta ár hérna heima. Það er frábært að fá Inga aftur heim og það er risastórt fyrir KR mig persónulega. Þetta er þjálfari sem ég þekki mjög vel og við höfum unnið saman áður þegar að ég var í yngri flokkunum. Við höfum unnið titla saman, hann er mikill karakter og öll hans reynsla mun hjálpa liðinu mikið á þessum tímapunkti. Fyrir mér er þessi ráðning eitthvað sem allir hjá félaginu munu græða á.“

Jón Arnór Stefánsson íhugaði að leggja skóna á hilluna.
Jón Arnór Stefánsson íhugaði að leggja skóna á hilluna. mbl.is/Hari

Jón Arnór er einn besti körfuknattleiksmaður í sögu Íslands en hann viðurkennir að hann hafi leitt hugann að því að hætta.

„Ég íhugaði það alveg að kalla þetta gott. Það er vissulega leiðinlegt að sjá á eftir Brynjari en á sama tíma er þetta frábært tækifæri fyrir hann líka. Hann er búinn að vera lengi í KR og búinn að vinna einhverja átta titla held ég með félaginu og kannski var bara kominn tími á breytingar hjá honum. Ég er bara ánægður fyrir hans hönd og óska honum góðs gengis á nýjum vettvangi. Það kom mér vissulega mikið á óvart að Finnur skyldi hætta en ég reyni að sjá jákvæðu hliðarnar á þessu. Það gefur mönnum ákveðin kraft að fá Inga. Hann er öðruvísi þjálfari með öðruvísi áherslur og það er allaf jákvætt að fá inn nýja þjálfara. Það heldur mönnum á tánum að fá inn nýja rödd og það verður alltaf ákveðin breyting til hins betra með nýjum manni,“ sagði Jón Arnór að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert