Súpum seyðið af heimskupörum Capers

Borche Ilievski.
Borche Ilievski. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Munurinn í kvöld voru gæðin í liði Njarðvíkur. Við höfðum ekki jafn marga gæða leikmenn til að skipta inn á til að berjast við þá í kvöld,“ sagði svekktur Borche Ilievski, þjálfari ÍR, eftir 85:70-tap gegn Njarðvík í Seljaskóla í úrslitakeppni Íslandsmóts karla í körfuknattleik í kvöld.

ÍR er nú 2:0 undir í einvíginu og verður að vinna þrjá leiki í röð gegn Njarðvík til að komast áfram í undanúrslitin en Ilievski er þó ekki á þeim buxunum að gefast upp. „Við þurftum aðeins meiri orku og meðvind í kvöld. Það vantaði einhvern til að stíga upp en ég vona að strákarnir gefist ekki upp. Við þurfum að mæta af enn meiri krafti í næsta leik og halda áfram að berjast.“

Bandaríkjamaðurinn öflugi Kevin Capers var rekinn af velli í fyrsta leiknum og tók út leikbann í kvöld. Ilievski segir að leikmenn sínir hafi ekki tekið nægilega vel af skarið í fjarveru hans.

„Hákon fékk mínúturnar hans Capers og gerði sitt besta, hann spilaði ágætlega. Sigurkarl gerði líka vel en Sæþór og Matthías voru týndir í kvöld, sérstaklega í sókninni. Við þurfum fleiri stig frá þeim þegar Capers er frá.“

„Við erum að súpa seyðið af heimskupörum Capers og hann verður að læra af þessu. Hann getur ekki skilið liðið sitt eftir í þessari stöðu og ég ræddi þetta við hann. Ég vona að hann læri af þessu.“

Þótt staða ÍR sé ekki vænleg segir Ilievski þó allt vera hægt í körfubolta.

„Það er allt hægt! Við þurfum að spila af krafti og koma þessari seríu aftur í Seljaskóla. Það er þó áhyggjuefni að liðið spilar betur á útivelli en heima. Ég held að strákarnir finni fyrir einhverri pressu hérna en þeir eru afslappaðri á útivelli og ég vona að þeir verði það í næsta leik.“

Kevin Capers var ekki með í kvöld.
Kevin Capers var ekki með í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert