ÍR hélt lífi í einvíginu

Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson með boltann gegn ÍR í kvöld …
Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson með boltann gegn ÍR í kvöld en Kevin Capers og Hákon Örn Hjálmarsson eru til varnar. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

ÍR kom í veg fyrir að vera sópað úr leik í einvígi sínu við Njarðvík í átta liða úrslitum um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik í kvöld. Njarðvík hafði unnið tvo fyrstu leikina í einvíginu en ÍR vann þriðja leikinn suður með sjó í kvöld, 70:64.

Sigur ÍR var nokkuð merkilegur fyrir þær sakir að þeirra helsti skorari í gegnum síðustu ár, Matthías Orri Sigurðarson, skoraði ekki stig í leiknum og var langt frá sínu besta. Fyrir ÍR að vinna leikinn þrátt fyrir þessa staðreynd er í raun ótrúlegt en um leið segir til um þann varnarleik sem þeir buðu Njarðvíkingum upp á þetta kvöldið. Kevin Capers, sem var í banni í síðasta leik, kom til baka óþreyttur og sýndi á sér sparihliðarnar með því að skora 26 stig.

En þegar mest lá við var það Sigurður Þorsteinsson sem var traustur sem eik. Hann skoraði þessi erfiðu stig á lokasprettinum þegar ÍR virkilega þurfti, að ógleymdri þeirri vörn sem hann spilar og bindur í raun saman varnarmúrinn. 

Njarðvíkingar eru í raun algert ólíkindartól og hafa í raun verið slíkir í allan vetur. Á öðrum endanum spila þeir eins og englar og líta í raun út fyrir að að ætla sér þann stóra og hafa í raun öll vopn sem til þarf í það verkefni. En á hinum endanum spila þeir líkt og í kvöld. Þeir áttu vissulega sína spretti og koma sér í fínt forskot, en ná ekki að halda dampi og í raun fara með leik sinn í tóma þvælu.

Á upphafsmínútum seinni hálfleiks gekk ÍR á lagið og barðist fyrir hverjum bolta. Á meðan voru Njarðvíkingar að reyna einhverjar „sirkus“-sendingar í sínum sóknarleik og gera hlutina töluvert erfiðari en þurfa að vera. Þetta jaðrar við hálfgerða vanvirðingu gegn andstæðingi sínum. Stórhættulegt og fengu þér að súpa seyðið af þessu í kvöld. Ætli þeir sér eitthvað lengra í þessu þá þurfa þeir að hysja upp um sig því nú er þessi sería komin á þann stað að vindurinn blæs hressilega í seglin hjá ÍR og þessi sigur hlýtur að auka á sjálfstraust þeirra fyrir komandi leik á föstudag á þeirra heimavelli. 

ÍR er enn vissulega með bakið upp við vegg og mega ekki tapa en ef tekið er mið af leiknum í kvöld má allt eins eiga von á oddaleik í Ljónagryfjunni.

„Við þurfum að laga nokkur atriði fyrir leikinn á föstudag en við erum bara spenntir ég fann það í klefanum strax eftir leik,“ sagði Jeb Ivey leikmaður Njarðvíkinga eftir leik.

„Við vorum harðari en í síðast leik og við vildum þetta meira held ég,“ sagði Hákon Örn Hjálmarsson leikmaður ÍR eftir leik í samtali. 

Njarðvík - ÍR 64:70

Ljónagryfjan, Úrvalsdeild karla, 27. mars 2019.

Gangur leiksins:: 0:1, 5:7, 13:9, 16:18, 22:20, 32:25, 35:27, 38:32, 41:36, 48:43, 48:50, 50:53, 52:56, 59:61, 61:66, 64:70.

Njarðvík: Elvar Már Friðriksson 19/7 fráköst, Jeb Ivey 10, Maciek Stanislav Baginski 8, Eric Katenda 7/6 fráköst, Mario Matasovic 7/8 fráköst/3 varin skot, Logi Gunnarsson 7, Ólafur Helgi Jónsson 6.

Fráköst: 22 í vörn, 8 í sókn.

ÍR: Kevin Capers 26/4 fráköst, Gerald Robinson 13/9 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 12/8 fráköst, Hákon Örn Hjálmarsson 11, Sæþór Elmar Kristjánsson 8/6 fráköst.

Fráköst: 20 í vörn, 9 í sókn.

Dómarar: Ísak Ernir Kristinsson, Jóhannes Páll Friðriksson, Davíð Kristján Hreiðarsson.

Áhorfendur: 443

Njarðvík 64:70 ÍR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert