Tekur þátt í nýliðavali NBA-deildarinnar

Jón Axel Guðmundsson í leik með Davidson-háskólanum á síðustu leiktíð.
Jón Axel Guðmundsson í leik með Davidson-háskólanum á síðustu leiktíð. Ljósmynd/@BryanKalbrosky

Körfuknattleikskappinn Jón Axel Guðmundsson tekur þátt í nýliðavali NBA-deildarinnar en þetta staðfesti Körfuknattleikssamband Íslands, KKÍ, á heimasíðu sinni í dag.

Upphaflega átti nýliðavalið að fara fram í Barcleys Center í New York í Bandaríkjunum en vegna kórónuveirufaraldursins var ákveðið að sýnt yrði beint frá valinu úr höfuðstöðvum sjónvarpsstöðvarinnar ESPN í Bandaríkjunum.

Jón Axel hefur leikið með Davidson-háskólanum í Bandaríkjunum undanfarin ár þar sem hann hefur slegið í gegn en hann er í dag samningsbundinn Fraport Skyliners í efstu deild Þýskalands.

Jón Axel æfði með nokkrum liðum NBA-deildarinnar áður en hann samdi í Þýskalandi en tímabilinu í háskólaboltanum var aflýst vegna faraldursins sem og nýliðavalinu sjálfu sem átti upphaflega að fara fram í sumar. Hann tjáði Morgunblaðinu síðasta vor að hann hefði einnig fundað með mörgum NBA-liðum. 

Charlotte Hornets, Sacramento Kings og Golden State Warriors eru allt lið sem hafa fylgst með Jóni Axel en hann er 24 ára gamall.

mbl.is