Njarðvík ekki í vandræðum með Tindastól

Dedrick Basile í leiknum í kvöld.
Dedrick Basile í leiknum í kvöld. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Í kvöld mættust liðin sem háðu hressilega rimmu í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta á síðustu leiktíð þegar Njarðvík og Tindastóll áttust við.

Njarðvíkingar áttu harma að hefna enda slegnir út af Skagfirðingum og þegar yfir lauk náðu Njarðvíkingar að landa sigrinum mikilvæga eftir ansi fjörugan leik í Ljónagryfjunni. 91:68 varð niðurstaða kvöldsins og kannski óvænt úrslit fyrir marga og þó.

Fyrir leik var ljóst að Skagfirðingar kæmu ansi vel særðir til leiks þar sem að bakvarðapar þeirra Sigtryggur Arnar Björnsson og Pétur Rúnar Birgisson voru báðir meiddir aftaní læri. Slíka blóðtöku þola fæst lið þar sem Pétur hefur stýrt liðinu af mikill festu og Sigtryggur Arnar verið þeim þungavigtamaður á báðum endum vallarins.

Þrátt fyrir hetjulega baráttu Tindastóls þá náðu þeir aldrei almennilegum fókus í þessum leik og sást það langar leiðir að þeir söknuðu sárt þessara tveggja öflugu leikmanna. Þessi staðreynd skyggir hinsvegar ekki á frábæra frammistöðu Njarðvíkinga þetta kvöldið sem léku við hvurn sinn fingur.

Nico Richotti snéri aftur á fjalir Ljónagryfjunar í lið Njarðvíkinga og virkaði innkoma hans eins og vítamínssprauta fyrir liðið. Richotti náttúrlega hokinn reynslu úr efstu deild af Spáni þó svo að kappinn sé vissulega komin yfir sitt allra besta skeið.

Tindastólsmenn reyndu að stíla inná yfirburði sína í teignum gegn Njarðvíkingum og þar var Ardomis Drungilas eins og kóngur í ríki sínu og réðu heimamenn lítt við þennan tröllvaxna Litháa. En mögulega hefðu Tindastólsmenn þurft að hægja verulega á leiknum og spila meira inná þessi tromp sín í stað þess að reyna að vera að keyra upp hraðann með Njarðvíkingum.

Talandi um hraða þá var það í höndum Dedrick Basile hins knáa bakvarðar Njarðvíkinga að stýra svolítið hraðanum hjá heimamönnum og gerði hann það ansi vel. Kappinn hélt "tempói" leiksins háu og oftar en ekki skilaði það auðveldum körfum.

Eftir að hafa farið illa út úr fyrstu umferð virðast Njarðvíkingar vera að finna beinu leiðina með tvo sigra í röð. Gestirnir úr Skagafirðinum þurfa hinsvegar að leggjast á bæn um að þeirra dáðu heimabökuðu bakverðir snúi sem fyrst á parketið. Kannski það eina góð sem Tindastóll tekur úr þessum leik er að minni spámenn liðsins fengu ansi hressilega eldskírn í Ljónagryfjunni og setja það í reynslubanka sinn.

Njarðvíkingar hafa því eru sem stendur í 5. sæti deildarinnar með 2 sigra og 1 tap á meðan TIndastóll eru í 7. sæti með 1 sigur og 2 töp.

Gangur leiksins:: 5:2, 13:8, 19:12, 24:20, 30:27, 34:33, 41:33, 52:37, 61:41, 70:44, 72:46, 81:51, 81:51, 81:55, 87:61, 91:68.

Njarðvík: Dedrick Deon Basile 25/4 fráköst/8 stoðsendingar, Oddur Rúnar Kristjánsson 17, Haukur Helgi Pálsson 15, Nicolas Richotti 11, Lisandro Rasio 9/4 fráköst, Mario Matasovic 5/5 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 4, Maciek Stanislav Baginski 3/4 fráköst, Logi Gunnarsson 2.

Fráköst: 17 í vörn, 3 í sókn.

Tindastóll: Adomas Drungilas 17/8 fráköst, Antonio Keyshawn Woods 15/4 fráköst, Ragnar Ágústsson 11/9 fráköst, Taiwo Hassan Badmus 9/4 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 6, Eyþór Lár Bárðarson 4, Zoran Vrkic 4/5 fráköst, Orri Svavarsson 2.

Fráköst: 21 í vörn, 12 í sókn.

Dómarar: Jóhannes Páll Friðriksson, Bjarki Þór Davíðsson, Gunnlaugur Briem.

Niclás Richotti reynir sniðskot í kvöld.
Niclás Richotti reynir sniðskot í kvöld. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson
Njarðvík 91:68 Tindastóll opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert