Besta skor frá upphafi

Arnar Davíð Jónsson var efstur Íslendinga í forkeppninni í keilu …
Arnar Davíð Jónsson var efstur Íslendinga í forkeppninni í keilu á Reykjavíkurleikunum. Ljósmynd/KLÍ

Keilukeppni Reykjavíkurleikanna hófst í Keiluhöllinni í Egilshöll á fimmtudag. Forkeppninni lauk í dag og svo verður úrslitakeppni á morgun.

Töluverðar breytingar urðu á meðal 24 efstu sem komast beint inn í úrslitakeppnina í dag. Rikke Agerbo sem sigrað hefur mótið í tvígang kom og minnti rækilega á sig en hún spilaði sig upp í 3. sætið með 1.493 seríu eða 249 í meðaltal. Maria Rodriguez frá Kólumbíu hefur leitt forkeppnina frá því hún hófst á fimmtudag og urðu engar breytingar á því í dag. Arnar Davíð Jónsson var efstur Íslendinga í forkeppninni í 5. sæti með 247 í meðaltal.

Alls þurfti 230 í meðaltal úr 6 leikja seríu til að komast í efstu 24 sætin og hefur skorið aldrei verið svona hátt í mótinu þau 12 ár sem það hefur verið haldið. 

Undanúrslit byrja í fyrramálið kl. 9 en þá leika þau sem fengu aukasæti í úrslitum, s.s. bestu seríur pilta og stúlkna undir 18 ára auk annarra aukasæta, við þau sem enduðu í 17. til 24. sæti. Raðað er þannig að lægsta sætið mætir því hæsta og þarf að vinna tvo leiki til að komast í næstu umferð. Keppendur halda sætanúmeri sínu alla leið. Úrslit fjögurra efstu eftir undanúrslitin verða í beinni útsendingu á RÚV og hefst útsending kl. 14:30.

Hér á rigbowling.is má sjá lokaniðurstöður forkeppninnar. 

mbl.is