Frjálsíþróttaveisla í Laugardalshöll

Hlynur Andrésson átti frábært 1.500 m hlaup á Reykjavíkurleikunum í …
Hlynur Andrésson átti frábært 1.500 m hlaup á Reykjavíkurleikunum í fyrra og endurtekur vonandi leikinn í ár. ÍBR/Kjartan Einarsson

Frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna fer fram í Laugardalshöll í dag og hefst klukkan 16. Mótið er alþjóðlegt boðsmót og sterkasta frjálsíþróttamótið sem haldið er hér á landi ár hvert. Flest af besta frjálsíþróttafólki landsins er skráð til keppni ásamt um 30 öflugum erlendum keppendum frá sex löndum, samtals 109 keppendur.

Samantekt frá Frjálsíþróttasambandi Íslands um keppendur í nokkrum sérstaklega áhugaverðum greinum sem keppt verður í á Reykjavíkurleikunum í dag:

1.500 m hlaup  

Vonir eru bundnar til þess að Hlynur Andrésson bæti nýju Íslandsmeti í safnið í dag en hann keppir í 1.500 metra hlaupi. Árið 2019 var frábært fyrir Hlyn Andrésson þar sem hann setti meðal annars þrjú Íslandsmet og keppti á EM innanhúss. Hann mun fá góða keppni frá tveimur erlendum keppendum, Cole Sprout frá Bandaríkjunum og Kieran Reilly frá Englandi. Hlynur keppti í sömu grein á Reykjavíkurleikunum í fyrra og þar átti hann frábært hlaup. Náði hraðasta hlaupi Íslendings með rafrænni klukku og var rétt frá Íslandsmeti Jóns Diðrikssonar frá árinu 1980 sem er 3:45,6 mínútur. 

60 m hlaup

Í 60 metra hlaupi karla mæta til leiks fimm erlendir keppendur sem allir eiga undir sjö sekúndur. Fljótastir af þeim eru James Williams frá Englandi og Gavin Sawchuck sem báðir eiga 6,77 sekúndur en til samanburðar er Íslandsmetið í greininni 6,80 sekúndur sem Einar Þór Einarsson setti árið 1993. Íslensku strákarnir munu klárlega veita þeim erlendu sterka samkeppni. Þar á meðal er Dagur Andri Einarsson sem hefur hlaupið hraðast íslensku keppendanna í ár eða á 7,03 sekúndum og Juan Ramos Borges Bosque sem er ríkjandi Íslandsmeistari í greininni.

Í kvennahlaupinu á Cayla Seddon frá Suður-Afríku bestan tíma keppenda, 7,25 sekúndur. Þar á eftir koma Louise Østergård frá Danmörku og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir sem eiga báðar 7,47 sekúndur. Guðbjörg er Íslandsmethafinn í greininni ásamt Tiönu Ósk Whitworth.

200 m hlaup kvenna

Guðbjörg Jóna mun einnig keppa í 200 metra hlaupi. Hún hefur nokkrum sinnum hlaupið á rétt rúmum 24 sekúndum en í dag mun hún fá samkeppni frá hinni bandarísku Aaliyah Pyatt sem á best 23,95 sekúndur. Það gæti verið samkeppnin sem Guðbjörg þarf til þess að komast undir 24 sekúndur og verða önnur íslenska konan til þess að takast það frá upphafi. Aðeins Íslandsmethafinn í greininni, Silja Úlfarsdóttir, hefur afrekað það.

Hástökk

Í hástökki kvenna eru fimm keppendur og þar af eru þrjár erlendar sem allar hafa stokkið yfir 1,80 metra. Bestan árangur á silfurverðlaunahafinn á HM unglinga, Sommer Lecky frá Írlandi, en hún á 1,90 metra best. Frá Íslandi keppa Eva María Baldursdóttir og María Rún Gunnlaugsdóttir sem báðar hafa stokkið yfir 1,76 metra við allar aðstæður. 

Í karlaflokki verður spennandi að fylgjast með Kristjáni Viggó Sigfinnssyni sem nýverið stökk yfir 2,13 metra og bætti um leið 23 ára gamalt aldursflokkamet í greininni. Hann mun fá sterka samkeppni frá Dominic Ogbechie frá Englandi sem á best 2,18 metra.

Kúluvarp

Í kúluvarpskeppninni eru tveir ólympíufarar á meðal keppenda. Það eru Ásdís Hjálmsdóttir sem keppt hefur á þrennum Ólympíuleikum í spjótkasti og Guðni Valur Guðnason kringlukastari. Þrátt fyrir að kúluvarp sé ekki þeirra helsta keppnisgrein eru þau bæði góðir kúluvarparar og á Ásdís Íslandsmetið í kúluvarpi utanhúss sem staðið hafði í 27 ár þegar Ásdís bætti það síðasta haust. Íslendingarnir fá samkeppni frá Englandi og Írlandi en Ásdís á bestan árangur í kvennakeppninni, 15,96 metra innanhúss. Af körlunum er það John Kelly frá Írlandi sem hefur kastað 17,56 metra innanhúss.

Boðhlaup - Ísland gegn Bandaríkjunum

Haustið 2018 var settur saman íslenskur boðhlaupshópur sem æft hefur markvisst saman síðan. Markmiðið er að koma íslenskri boðhlaupssveit á stórmót og var fyrsta verkefni sveitarinnar á Reykjavíkurleikunum í fyrra. Þá keppti Ísland gegn Bandaríkjunum í 4×200 metra boðhlaupi. Kvennamegin bar íslenska sveitin sigur úr býtum en hjá körlunum sigraði hin bandaríska. Báðar íslensku sveitirnar náðu hins vegar besta árangri frá upphafi meðal Íslendinga.

Í karlasveitinni í ár hlaupa Ari Bragi Kárason, Dagur Andri Einarsson, Ólíver Máni Samúelsson og Kormákur Ari Hafliðason. Í kvennasveitinni eru Agnes Kristjánsdóttir, Andrea Torfadóttir, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Þórdís Eva Steinsdóttir.

Miðasala á frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna er í fullum gangi á tix.is en einnig er hægt að kaupa miða við innganginn. Frítt er inn fyrir 12 ára og yngri.

Hér má nálgast leikskrá fyrir mótið.

Hér má sjá úrslitin birtast jafnóðum.

mbl.is