„Ég veit að ég á mikið inni“

Guðbjörg Jóna kemur fyrst í mark í 200 metra hlaupinu …
Guðbjörg Jóna kemur fyrst í mark í 200 metra hlaupinu í dag og Tiana Ósk önnur. mbl.is/Arnþór Birkisson

Spretthlaupararnir úr ÍR, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og TIana Ósk Whitworth, voru býsna ánægðar með frammistöðuna miðað við árstíma á í frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna í Laugardalshöllinni í dag. 

Báðir kepptu þær í 60 metra hlaupi og 200 metra hlaupi á leikunum í dag. 

„Ég er mjög ánægð. Auðvitað vill maður alltaf sjá bætingu en ég var mjög nálægt því að bæta mig í 60 metra hlaupinu. Ég var bara einu sekúndubroti frá mínum besta tíma,“ sagði Guðbjörg Jóna þegar mbl.is spjallaði við hana í Laugardalshöllinni í dag en Íslandsmet Guðbjargar Jónu í 60 metra hlaupi innanhúss er 7,43 sekúndur. Hún hljóp í dag á 7,44 sekúndum. 

Guðbjörg Jóna sigraði í 200 metra hlaupinu á Reykjavíkurleikunum. „200 metra hlaupið var að mestu leyti mjög flott en ég datt næstum því eftir 100 metra. Ég veit að ég á mjög mikið inni,“ sagði Guðbjörg Jóna. 

Tiana Ósk Whitworth er að ná sér á strik á ný eftir að hafa verið frá vegna meiðsla en hún hljóp á 7,45 sekúndum í 60 metra hlaupinu. 

Tiana Ósk bíður eftir að komast af stað í 200 …
Tiana Ósk bíður eftir að komast af stað í 200 metra hlaupinu. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Á heildina litið er ég frekar ánægð með daginn. Ég er ánægðari með 60 metrana heldur en 200 metra hlaupið en bæði hlaupin voru fín,“ sagði Tiana þegar mbl.is ræddi við hana. „Það hjálpar alltaf svo mikið að fá samkeppni frá erlendum keppendum. Við Guðbjörg erum svolítið vanar því að vera bara tvær að hlaupa en með alþjóðlegum mótum eins og RIG kemur önnur stemning. Sérstaklega þegar áhorfendur eru leyfðir. Það hjálpar mikið og því hefði verið gaman að ná að bætingu í dag og nýta sér aðstæður,“ sagði Tiana Ósk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert