Jón Ásgeir og Gunnar áfram í stjórnum

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Ómar

Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður Baugs í Bretlandi og Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs, munu áfram sitja í stjórnum bresku verslunarkeðjanna House of Fraser, Iceland,  Aurum og Hamleys þótt skilanefnd Landsbankans hafi gengið að veðum bankans í þessum fyrirtækjum.

Fram kemur á vefnum thisismoney.co.uk, að þetta hafi orðið niðurstaða í viðræðum Baugs og skilanefndar Landsbankans sl. fimmtudag. Á föstudag tilkynnti Baugur, að fyrirtækið myndi ekki andmæla kröfu Landsbankans um að BG Holding, dótturfélag Baugs sem fer með eignirnar í Bretlandi, yrði sett í greiðslustöðvun. 

Vefurinn segir, að þessar fréttir hafi komið starfsmönnum á aðalskrifstofu Baugs í Bond Steet í Lundúnum á óvart en þar blasi við uppsagnir. Fram kemur, að stjórnarsetan tryggi Jóni Ásgeiri um 20 þúsund punda laun á mánuði, jafnvirði  3,4 milljóna króna, auk afnota af fyrirtækisbíl og einkaþyrlu.

Er haft eftir heimildarmanni, sem sagður er þekkja til, að nauðsynlegt hafi verið talið að þeir Jón Ásgeir og Gunnar störfuðu áfram við fyrirtækin þar sem þeir þekki þar vel til mála og muni veita bönkum og tilsjónarmönnum ráðgjöf.  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK