81 eyrir fyrir hverja krónu eigin fjár

Tilkynnt var um söluna í gærkvöldi.
Tilkynnt var um söluna í gærkvöldi. mbl.is/Ómar

Lokað útboð, sem leitt var af fjárfestingarbankanum Morgan Stanley og endaði með sölu á tæplega 30% hlut í Arion banka til erlendra aðila, átti sér nokkurra mánaða aðdraganda. Skriður komst þó ekki á viðræðurnar fyrr en í byrjun þessa árs, en Fjármálaeftirlitinu hefur verið haldið upplýstu um málavexti.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari Kaupþings ehf. við fyrirspurn mbl.is.

Eins og mbl.is greindi frá í gær seldi Kaupþing tæp­lega 30% hlut sinn í Ari­on banka í gegn­um dótt­ur­fé­lag sitt Kaupskil ehf. fyr­ir ríf­lega 48,8 millj­arða króna.

Í svari félagsins segir að tilboðin hafi verið samþykkt með fyrirvörum í febrúar síðastliðnum.

Eftir samningaviðræður kaupenda og seljenda hafi verðið þá verið ákveðið 0,81 króna fyrir hverja krónu eigin fjár bankans. Matið mun hafa byggst á nýjustu fjárhagsupplýsingum Arion banka á þeim tíma, sem var þriðja ársfjórðungsuppgjör síðasta árs.

Hlutirnir ekki keyptir til endursölu

Í svarinu er því hafnað að kaupin, sem gerð eru með reiðufé, séu fyrir reikning viðskiptavinar eða til endursölu.

„Í tilfelli sjóðastýringarfyrirtækjanna þriggja er fjárfestingin gerð af fjárfestingarsjóðum á þeirra vegum og í tilfelli Goldman Sachs er um að ræða fjárfestingu fyrir eigin reikning.“

Ekki hefur verið ákveðið hvenær bankinn verður settur á markað.

„Niðurstaða þessara viðskipta er að okkar mati mikilvægt fyrsta skref í þeirri fyrirætlan Kaupþings að selja frekari hluti í Arion banka sem kann að fela í sér skráningu á markað. Endanlegar ákvarðanir hafa ekki verið teknar varðandi tímasetningar á frekari sölu.“

Verðið í kaupréttinum trúnaðarmál

Að sama skapi fæst ekki upplýst hvort viðræðum við íslenska lífeyrissjóði, um sölu á hlutum til þeirra, hafi verið slitið.

„Eins og fram hefur komið hafa átt sér stað viðræður við lífeyrissjóði og aðra áhugasama fjárfesta. Við teljum hins vegar ekki rétt að tjá okkur frekar um slíkar viðræður.“

Í tilkynningunni sem send var vegna kaupanna til kauphallarinnar í gær segir að kaupsamningarnir veiti fjárfestum kauprétt að 437.191.585 hlutum í bankanum, sem jafngildir 21,9% af útgefnu hlutafé, „á verði sem er yfir því verði sem greitt var fyrir í útboðinu.“

Umrætt verð mun vera trúnaðarmál samkvæmt kaupsamningunum, að því er segir að lokum í svari Kaupþings.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir