Fer varlega í ályktanir út frá einni mínustölu

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það þarf að fara varlega í að draga of miklar ályktanir út frá þessari einu mínustölu. Þegar tölur frá maí og júní koma þá höfum við betri vísbendingu um þróunina.“ Þetta segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri, en í gær var greint frá því að ferðamönnum hafi fækkað í apríl samanborið við sama mánuð í fyrra. Er það fyrsta fækkun ferðamanna sem hér mælist frá því árið 2010.

Skarphéðinn segir að í raun sé þessi þróun í samræmi við það sem hafi verið á fyrri hluta ársins og í lok þess síðasta þegar fjölgunin var um og innan við 10%. Þannig sé áfram fjölgun á ferðamönnum þegar horft er til fyrsta ársfjórðungs, þótt apríl hafi dregist saman. Það muni svo koma í ljós á næstu mánuðum hvort þetta sé áframhaldandi þróun eða frávik.

Hækkunin var mjög skörp á síðasta ári

Rétt er einnig að sögn Skarphéðins að halda því til haga að fjölgun ferðamanna í apríl í fyrra var mjög skörp, eða 62% frá árinu á undan. Þrátt fyrir fækkunina núna séu því 55% fleiri ferðamenn hér á landi í apríl í ár miðað við apríl árið 2016. Vert er að benda á að páskar voru í apríl í fyrra, en voru að mestu í mars á þessu ári.

„Þetta er í samræmi við þróun síðustu mánuði, en ef það verða mínustölur á komandi mánuðum þá getum við talað um samdrátt og þá gætum við farið að hafa áhyggjur,“ segir hann.

Skarphéðinn segir að umræða um þessi mál varpi aftur ljósi á það sem Íslendingar þurfi að velta fyrir sér í stóra samhenginu þegar horft sé til ferðaþjónustunnar. Það sé að finna út hvað landið beri af ferðamönnum og hvað það sé ákjósanlegt að ferðamenn séu margir. Bendir hann á að ef fjölgunin sé 10% á ári, sem hingað til hafi þótt hæfileg fjölgun, verði ferðamenn orðnir 3,5 milljónir á fimm árum, en í dag eru þeir 2,5 milljónir. „Lítil árleg fjölgun leiðir á endanum til þess að við séum komin með of marga ferðamenn,“ segir hann.

Stjórnstöð ferðaþjónustunnar vinnur þessi misserin að greiningu á þessu og segir Skarphéðinn að horfa þurfi til þess þegar niðurstöðurnar liggi fyrir.

Ferðamönnum fækkaði í fyrsta skipti í apríl, þegar miðað er …
Ferðamönnum fækkaði í fyrsta skipti í apríl, þegar miðað er við sama tíma árið áður, frá því árið 2010. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Getur ekki verið mannaflsfrek atvinnugrein byggð á innfluttu vinnuafli

Verkefni ferðaþjónustunnar er að hans sögn að vinna úr því sem í boði er. „Verðlag á Íslandi verður aldrei lágt. Við getum alveg hætt að hugsa um það,“ segir Skarphéðinn og bætir við: „Við þurfum að finna út hvernig ferðaþjónustan ætlar að lifa af, það fer enginn að breyta gengisskráningunni fyrir ferðaþjónustu frekar en aðrar útflutningsgreinar.“

Þarf ferðaþjónustan að hans sögn að finna leiðir til að hagræða í rekstri og ekki síst með því að nýta tæknilausnir, sem hann segir að ferðaþjónustan sé almennt ekki að nýta sér í dag.

Vísar hann til þess þegar sjávarútvegurinn þurfti að lifa með minni kvóta og afla. Þá fóru menn að auka tæknistig og samhliða jókst framleiðni. „Ferðaþjónustan getur ekki gengið út á að vera mannaflsfrek atvinnugrein sem gengur út á að flytja inn vinnuafl,“ segir hann.

Fækkun Bandaríkjamanna helstu vonbrigðin

Í apríltölunum í ár munaði mestu um talsverðan samdrátt á komu Bandaríkjamanna og Breta, en þessar þjóðir telja um helming þeirra ferðamanna sem hingað koma. Skarphéðinn segir að í raun sé fækkun Breta í takt við það sem hafi verið fyrirséð eftir að Bretar samþykktu Brexit. Reyndar séu ferðamenn þaðan enn fleiri en spáð hafði verið fyrir með veikingu pundsins.

„Bandaríkjamönnum er hins vegar að fækka meira en maður vildi sjá,“ segir Skarphéðinn og vísar meðal annars til þeirrar markaðssóknar sem flugfélögin hafa stundað vestanhafs.

Langtímamál á landsbyggðinni

Annað vandamál tengt háu gengi krónunnar undanfarið sést í því að ferðamenn verja færri dögum hér á landi en áður. Slíkt virðist koma niður á bókunarstöðu á landsbyggðinni. Hvernig er hægt að bregðast við ef landsbyggðin verður bæði fyrir áhrifum af fækkun ferðamanna til landsins og hlutfallslegri fækkun þeirra sem sækja út á land. Skarphéðinn segir að því miður væri það ekki staða sem hægt væri að leysa með snöggum hætti, heldur væri það langtímamál. Nú væri unnið um allt land með heimamönnum og hinu opinbera að því að búa til fleiri áhugaverða ferðamannastaði. Það taki hins vegar tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK