Óljóst hvort Skúli verði meirihlutaeigandi

Skúli Mogensen, stofnandi og fram­kvæmda­stjóri WOW air.
Skúli Mogensen, stofnandi og fram­kvæmda­stjóri WOW air. Ljósmynd/Aðsend

Skúli Mogensen, stofnandi og fram­kvæmda­stjóri WOW air, gæti orðið meirihlutaeigandi að nafninu til í flugfélaginu, ákveði Bill Frankie, stjórnandi Indigo Partners, að fara sömu leið með WOW air og Wizz air.

Frá þessu er greint á vefnum Túristi.is þar sem vísað er í íslensk lög sem gera kröfu um að eignarhluti erlendra aðila í íslensku flugfélagi megi ekki vera meira en 49 prósent. Reglurnar gilda sömuleiðis á EES-svæðinu og þekkir Franke þær því vel eftir að hafa fjárfest í ungverska lággjaldaflugfélaginu Wizz Air.

Í frétt Túrista er Franke hins vegar sagður hafa fundið leið fram hjá þessum reglum þar sem meginhluti eignar Indigo Partners í Wizz air hafi verið í gegnum eignarhald í breytanlegum skulda- og hlutabréfum. Þar með hafi beinn og óbeinn hlutur bandaríska fjárfestingafélagsins í Wizz air numið allt að 66 prósentum. Hlutdeild Indigo Partners í hefðbundnu hlutafé var þó aðeins um fimmtungur. Þar með var Indigo Partners langt undir hámarki Evrópusambandsins.

„Ef Franke fer sömu leið með WOW gæti hann látið líta út fyrir að það væri Skúli Mogensen sem fari með meirihluta í flugfélaginu en það yrði þá bara að nafninu til,“ segir í frétt Túrista.

Í tilkynningu sem WOW air sendi frá sér í kvöld kemur fram að viðræður um fjárfestingu Indigo Partners í WOW air gangi vel en að eftir eigi að útkljá nokkur vafaatriði varðandi leiðarkerfi WOW air.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir