Flug verið langt undir kostnaðarverði

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er sorgardagur fyrir íslenska ferðaþjónustu og flug,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í samtali við mbl.is, um tíðindin að WOW air sé hætt starfsemi. Hann segir að hugur sinn sé hjá starfsfólki WOW air en Icelandair vinnur að því að bjarga strandaglópum flugfélagsins heim.

„Einnig vinnum við að því að flytja áhafnir WOW air heim, þeim að kostnaðarlausu,“ segir Bogi en í morgun bárust fregnir þess efnis að flugfreyjur WOW air væru strandaglópar í New York.

Bogi telur að þrátt fyrir brotthvarf WOW verði áfram mikil samkeppni í flugi til og frá Íslandi. Hann bendir á að 25 flugfélög fljúgi hingað í sumar og 15 allan ársins hring. Hann segir að ef sjálfbær markaður er fyrir hendi muni önnur félög geta fyllt í skarðið sem WOW skilur eftir sig.

„Við erum búin að vera með viðbragðsplan tilbúið síðan síðastliðið haust ef eitthvað svona kæmi upp á,“ segir Bogi þegar hann er spurður hvort Icelandair hafi gert ráðstafanir vegna erfiðrar stöðu WOW undanfarna mánuði.

Segir að flugfargjöld þurfi að vera sjálfbær

Einhverjir hafa áhyggjur af því að við brotthvarf WOW air muni verð á flugmiðum hækka en Bogi segist ekki vita hvort það verði raunin en að hans mati þurfi flugfargjöld að vera sjálfbær til lengri tíma. 

„Við höfum sagt að margt af því sem hefur verið í gangi á markaðnum hefur ekki verið sjálfbært. Auðvitað hefði alltaf orðið einhver breyting, að okkar mati, því þetta gekk ekki svona eins og niðurstaðan er. Það verður engin stórkostleg breyting enda fljúga lággjaldaflugfélög enn til og frá landinu.

Spurður hvort hann meini með þessu að flugmiðaverð hafi verið of lágt er svarið einfalt:

„Það gefur augaleið að einhverjir hafa verið að verðleggja sig of lágt, langt undir kostnaðarverði. Það hefur áhrif á allan markaðinn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir