Ákærður fyrir stórfellt svindl

Martin Winterkorn, fyrrverandi forstjóri Volkswagen, hefur verið ákærður af þýskum ...
Martin Winterkorn, fyrrverandi forstjóri Volkswagen, hefur verið ákærður af þýskum saksóknurum vegna útblástursskandalsins. Myndin er frá árinu 2015. AFP

Martin Winterkorn, fyrrverandi forstjóri Volkwagen, hefur verið ákærður af saksóknaraembættinu í Braunschweig í Þýskalandi fyrir sinn þátt í útblásturs-svindlinu sem var afhjúpað árið 2015. Fjórir framkvæmdastjórar Volkswagen til viðbótar eru einnig ákærðir í málinu, en allir eru mennirnir ákærðir fyrir stórfelld svik.

AFP fréttaveitan segir ekki liggja ljóst fyrir hvort að framkvæmdastjórarnir fjórir séu enn starfandi innan Volkswagen-samsteypunnar eða hvort að þeir hafi látið af störfum hjá félaginu eftir að skandallinn kom upp, en þeir eru ekki nafngreindir í ákæru.

Fram kemur í frétt á vef BBC að Winterkorn gæti átt yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi, verði hann fundinn sekur.

Forstjórinn fyrrverandi lét af störfum í september árið 2015, eftir að upp komst að Volkswagen hefði svindlað á útblástursprófunum bifreiða sinna árum saman með sérstökum hugbúnaði í ökutækjunum. Hann neitaði því að hafa haft vitneskju um svindlið og sagðist ekki meðvitaður um að hafa gerst brotlegur í starfi með neinum hætti.

Frá verksmiðju Volkswagen í Wolfsburg í Þýskalandi.
Frá verksmiðju Volkswagen í Wolfsburg í Þýskalandi. AFP

Saksóknarar slá því hins vegar föstu að Winterkorn hafi haft vitneskju um svindlið, allt frá 25. maí árið 2014. Frá þeim degi leið meira en eitt ár þar til að að Volkswagen viðurkenndi að hafa sett svindlhugbúnaðinn í 11 milljón bifreiðar.

Winterkorn hefur einnig verið ákærður af yfirvöldum í Bandaríkjunum vegna útblástursskandalsins, en ólíklegt er að hann muni nokkurntíma svara til saka vestanhafs, þar sem þýsk stjórnvöld framselja ekki þýska ríkisborgara í hendur erlendra yfirvalda.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir