Engar áhyggjur að verðbólgan fari úr böndum

Þórarinn G. Pétursson, framkvæmdastjóri sviðs hagfræði og peningastefnu hjá Seðlabankanum.
Þórarinn G. Pétursson, framkvæmdastjóri sviðs hagfræði og peningastefnu hjá Seðlabankanum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að öllum líkindum verður hér á landi samdráttur í þjóðarframleiðslu á þessu ári, en Seðlabankinn gerir ráð fyrir að strax á næsta ári náist efnahagsbati. Framkvæmdastjóri við bankann fullvissar fólk um að bankinn muni ekki leyfa verðbólgu að fara úr böndunum við þessar aðstæður.

Þetta var meðal þess sem kom fram á kynningarfundi peningastefnunefndar og fjármálastöðugleikanefndar, en í morgun var tilkynnt um lækkun stýrivaxta niður í 1,75% og að aflétta ætti 2% kröfu um sveiflu­jöfn­un­ar­auka, en talið er að það muni hafa já­kvæð áhrif til banka og fjár­mála­stofn­ana til að auka svig­rúm til nýrra út­lána um allt að 350 millj­arða. 

Þórarinn G. Pétursson, framkvæmdastjóri sviðs hagfræði og peningastefnu hjá bankanum, sagði á fundinum að staðan væri enn mjög óljós og mikið um óvissu. Þannig hefði alþjóðlegur hagvöxtur dregist saman, óvissa ýtt upp vaxtaálagi, spurn eftir útflutningi frá Íslandi væri að minnka og spurn eftir þjónustu væri einnig að dragast saman vegna sjálfseinangrunar þjóða. Vegna þessa væru áhrifin á mjög stóru bili og ómögulegt eins og stendur fyrir bankann að gefa út marktæka spá. Hins vegar væri enn á dagskrá að gefa út hagspá samhliða Peningamálum í maí.

Samdráttur á þessu ári en svo strax viðsnúningur

Með þessa óvissu í huga sagði Þórarinn þó að ljóst væri að hagvöxtur sem bankinn hafi gert ráð fyrir að yrði tæplega 1% í ár gengi ekki eftir. „Það verður að öllum líkindum samdráttur. Held að það liggi alveg fyrir,“ sagði hann á fundinum.

Þórarinn sagðist hins vegar eiga von á að viðspyrnan yrði nokkuð hröð og viðsnúningur strax á næsta ári. „Hversu fljótt við náum aftur fótfestu er einn af þessum óvissuþáttum. En held að það séu allar forsendur fyrir að við fáum efnahagsbata strax á næsta ári.“

Ekki áhyggjur af verðbólgu - „Við munum passa upp á það

Frá áramótum hefur krónan veikst um 10% og kom Þórarinn inn á það á fundinum hver áhrif af því gætu verið á verðbólgu og þar af leiðandi á stóran hluta húsnæðisskulda landsmanna. Sagði hann að spá bankans í febrúar hafi gert ráð fyrir að veðbólga yrði undir markmiði bankans allt árið. „Með þessari gengislækkun er ekki útilokað að hún fari yfir markmiðið.  En ég held að það sé rétt að ítreka að fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af því að verðbólga fari hér úr böndum eins og hefur gerst í fortíð. Við munum passa upp á það. Allar áhyggjur af því eru óþarfar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK