Útboðið tryggi ekki framtíð Icelandair

„Ástandið er enn þá alls ekki heppilegt til að fara …
„Ástandið er enn þá alls ekki heppilegt til að fara að fjárfesta í flugrekstri en það er mikið undir þannig að maður gerir ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir taki áhættuna,“ segir Kristján. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framtíð Icelandair er ekki tryggð jafnvel þótt hlutafjárútboð sem fram fer í vikunni gangi vel. Erlend flugfélög sem hafa farið í fjárhagslega endurskipulagningu hafa þrátt fyrir það þurft að leita til stjórnvalda fyrir frekari aðstoð og þurft að ráðast í uppsagnir. Þetta segir Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista, í samtali við mbl.is.

Hann telur þó ekki að fjöldi farþega hingað til lands muni dragast enn frekar saman en þeim sem leggja leið sína til Íslands hefur fækkað umtalsvert undanfarið, bæði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og hertra aðgerða á landamærum sem gera ráð fyrir tvöfaldri skimun allra sem hingað koma með sóttkví á milli. 

„Ætli [farþegafjöldinn] geti nokkuð minnkað mikið meira. Ég held að við séum komin aftur á botninn en það er bara vonandi að leiðin liggi upp á við í framhaldinu. Það er varla hægt að fara mikið neðar en við erum í í dag,“ segir Kristján. 

Kristján Sigurjónsson er ristjóri vefmiðilsins Túrista.
Kristján Sigurjónsson er ristjóri vefmiðilsins Túrista. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gengi Finnair hækkaði eftir útboð en lækkaði aftur

Í grein þriggja stjórnenda Icelandair sem birtist í Morgunblaðinu í morgun kom fram að vinn­an und­an­farna mánuði við end­ur­skipu­lagn­ingu Icelanda­ir og hluta­fjárút­boðið sem fram fer í vik­unni hafi „fyrst og fremst snú­ist um að tryggja framtíð Icelanda­ir Group og verja störf“. Spurður hvort framtíð félagsins sé tryggð ef hlutafjárútboðið gangi vel segir Kristján: 

„Ég held að það sé ótrúleg einföldun að segja að þá sé framtíðin tryggð, þrátt fyrir að ég vilji ekki vera allt of svartsýnn á horfurnar og vona að þetta fari allt að skána.“

Kristján bendir á að Finnair hafi t.a.m. farið í útboð í byrjun júlí. Gengi félagsins hafi í kjölfarið hækkað töluvert en nú sé það komið nálægt þeim stað sem það var á fyrir útboð. Finnair hefur þurft að segja upp fólki eftir útboðið og leita á náðir hins opinbera. 

Flugfélög víða farin að biðja aftur um stuðning

Fleiri félög en Icelandair ætla sér í hlutafjárútboð, t.a.m. SAS og IAG, móðurfélag British Airways.

„Svo sjáum við líka að flugfélög eru víða að fara aftur og biðja um stuðning ríkisins, til dæmis Norwegian. Ástandið er enn þá alls ekki heppilegt til að fara að fjárfesta í flugrekstri en það er mikið undir þannig að maður gerir ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir taki áhættuna,“ segir Kristján. 

Óvissa um þróun ekki minni 

Hann bendir á að ef viðspyrna Icelandair eigi að hefjast um mitt næsta ár þurfi fólk að hafa trú á því fljótlega að það geti bókað sér flugmiða. 

„Í eðlilegu árferði hefur þetta allt sinn aðdraganda, þú fyllir ekki upp í heilt leiðakerfi með eins mánaðar fyrirvara.“

Kristján segir að óvissa um þróun á flugmarkaði sé sannarlega ekkert minni en í fyrstu bylgju faraldursins. 

„Í fyrri bylgju höfðum við kannski trú á því að þetta yrði fljótlega búið en nú erum við komin á þann stað að þetta ætti að vera búið en er það alls ekki og áfram eru flugfélög að skera niður. Auðvitað vona ég að Icelandair verði komið fyrir horn ef hlutafjárútboðið gengur upp en það er ótrúleg einföldun að halda því fram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK