Snúa aftur til Sýnar

Skrifstofur Sýnar við Suðurlandsbraut.
Skrifstofur Sýnar við Suðurlandsbraut. mbl.is/Kristinn Magnússon

Með hlutdeild á kaupum Gavia, á 15% hlut í Sýn, eru Jón Skaftason og fjölskylda hans aftur tengd stjórn á fjarskiptafyrirtækinu eftir viðskilnað frá því fyrir nokkrum árum. Með honum í för er hópur fjárfesta sem hefur víða komið við sögu í atvinnulífinu.

Jón er sonur Kristínar Þorsteinsdóttur, fyrrverandi ritstjóra 365 miðla, en það fyrirtæki var að miklum meirihluta í eigu Ingibjargar Pálmadóttur í gegnum félagið Moon Capital í Lúxemborg.

Ingibjörg kvaddi starfsfólk Torgs haustið 2019. Við það tilefni sagði í frétt Fréttablaðsins að hún og eiginmaður hennar, Jón Ásgeir Jóhannesson, hefðu starfrækt fjölmiðla í 16 ár.

Helgi Magnússon keypti þá eignarhlut 365 miðla í Fréttablaðinu.

Framkvæmdastjóri fjárfestinga

Jón hefur starfað sem framkvæmdastjóri hjá fjárfestingafélaginu Streng sem eignaðist meirihluta í Skeljungi. Meðal stærstu hluthafa í Streng eru Ingibjörg Pálmadóttir og félög í hennar eigu.

Þá hefur Jón verið framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá 365 miðlum, áðurnefndu félagi Ingibjargar Pálmadóttur, en haustið 2018 var fjallað um þau í Fréttablaðinu í tengslum við sölu 365 miðla á bréfum í Sýn og kaupum á bréfum í Högum.

Nánar tiltekið seldu 365 miðlar hlut sinn í Sýn fyrir tæplega tvo milljarða og keyptu ríflega þriggja prósenta hlut í Högum fyrir hátt í 1,8 milljarða.

Vorið 2019 sagði Vísir.is frá sölu 365 miðla á bréfum í Högum og kaupum 365 miðla á bréfum í Skeljungi.

Það var svo í ársbyrjun 2021 að Viðskiptablaðið sagði frá því að Strengur hefði náð meirihluta í Skeljungi. En Ingibjörg Pálmadóttir er skráð á vef CreditInfo sem annar stærsti hluthafinn í Streng.

Skráður hjá tveimur einkahlutafélögum

Jón Skaftason er skráður fyrir 100% hlut í einkahlutafélögunum HB86 og Stelvio Consulting.

Eigið fé HB86 nam um 2,3 milljónum árið 2020. Sama ár var eigið fé Stelvio Consulting skráð 6,9 milljónir. Jafnframt hafði Jón aðkomu að einkahlutafélögunum Dida Holding, Þróunarfélaginu Hnoðraholti og Torg Prentfélagi.

Jón hefur setið í stjórn félaga sem Ingibjörg Pálmadóttir og viðskiptafélagar hennar hafa haft aðkomu að í Lundúnum en hann var þar búsettur um hríð.

Eigið fé um 680 milljónir

Með Jóni í för eru nokkrir fjárfestar, eins og áður sagði, og verður hér stuðst við upplýsingar úr ársreikningum 2020.

Andri Gunnarsson er skráður fyrir eignarhlut í nokkrum félögum í fyrirtækjaskrá CreditInfo.

Andri er skráður fyrir 100% hlut í Lexía ehf., 90% hlut í NL lögfræðiþjónustu slf., 18,8% hlut í Nordik lögfræðiþjónustu slf., 3,54% hlut í 11 Invest ehf. og 1,39% hlut í Bór ehf.

Eignir Lexíu ehf. námu um 731 milljón í árslok 2020 og var eigið fé tæplega 678 milljónir.

Dóttur- og hlutdeildarfélög Lexíu voru einkahlutafélögin S24, Eitt hótel, GB invest, Tiberius, Hvannir, Bourdeux félagið, Fiskibein, Erkihvönn og Silfurhvönn.

Hefur setið í stjórn Nova

Mark Wade Kroloff er ekki skráður fyrir hlutdeild í neinu félagi.

Hann hefur setið í stjórn farsímafyrirtækisins Nova.

Þá kemur hann að fjárfestingum hjá First Alaskan Capital Partners en það fjárfestir í fjarskiptafyrirtækjum, orkufyrirtækjum og fjármálafyrirtækjum.

Kemur að sprotafyrirtækjum

Reynir Grétarsson, stofnandi CreditInfo og fyrrverandi forstjóri Saltpay, fjárfesti í gegnum fjárfestingafélagið sitt InfoCapital sem fer með yfir 1% hlut í Icelandair, ásamt fjölda sprotafyrirtækja.

Reynir fer með 38,03% hlut í CreditInfo. Reynir keypti í fyrra bréf í Arion banka fyrir um milljarð. Hann seldi meirihluta CreditInfo til bandaríska framtakssjóðsins Levine Leichtman Capital Partners í fyrra.  

Ríkasti maður í Alaskaríki

Jonathan R. Rubini á 45% hlut í félaginu E&S 101 ehf. sem er fjórði stærsti hluthafi fasteignafélagsins Kaldalóns. Kaldalón er skráð á First North og fer E&S 101 ehf. með 6,48% hlut í félaginu.

Rubini var metinn ríkasti maður Alaskaríkis árið 2019, var þá metinn á 300 milljónir dala, samkvæmt Forbes. Hann er forstjóri og stjórnarformaður JL properties sem er verktakafyrirtæki í Alaska.  

Var framkvæmdastjóri CreditInfo

Loks fjárfestir Hákon Stefánsson, stjórnarmaður Two birds ehf. og eigandi Íslex ehf., í félaginu. Hákon er forstjóri InfoCapital sem er fjárfestingafélag Reynis Grétarssonar.

Áður var Hákon framkvæmdastjóri CreditInfo og stjórnarformaður.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK