Formlegt tilboð lagt fram í Origo – afskráning staðfest

Kristinn Magnússon

Félagið AU 22 ehf., sem er í eigu Umbreytingar II slhf., framtakssjóðs í rekstri Alfa Framtaks, hefur með formlegum hætti kynnt hluthöfum Origo valfrjálst tilboð í hluti þeirra í félaginu. Fram í kemur í tilboðinu að til standi að afskrá félagið úr Kauphöllinni.

Tilboðið var formlega lagt fram seint í gærkvöldi og kemur í framhaldi af því að AU 22 ehf. keypti um fjórðungshlut í Origo um miðjan desember sl. Samhliða því var tilkynnt að til stæði að gera öðrum hluthöfum valfrjálst tilboð í hluti þeirra á genginu 101 kr. á hlut. Það er lagt fram með þeim hætti að AU 22 ehf. er ekki skylt að gera yfirtökutilboð þó það nái yfirráðum í Origo í kjölfar tilboðsins.

Tilboðið nær til allra hluta í Origo sem ekki eru í eigu tilboðsgjafa eða félagsins sjálfs við lok viðskiptadags þann 18. janúar 2023. Þá hefur Arion banki verið ráðinn sem umsjónaraðili með valfrjálsa tilboðinu. Gildistími tilboðsis er frá 19. janúar til 22. febrúar nk.

Sem fyrr segir er verðið 101 kr. á hlut. Gengi félagsins stendur nú einmitt í 101 kr. á hlut, rétt eins og það var þegar tilboðið var upphaflega boðað í desember sl. Origo hækkaði mest allra félaga í Kauphöllinni á liðnu ári, eða um 38% á árinu. Mesta hækkunin kom til í október eftir að tilkynnt var um sölu félagsins á eftirstandandi hlut sínum í Tempo, sem þá var um 40%, til fjárfestingasjóðsins Diversis Capital fyrir um 29 milljarða króna. Þá voru um 24 milljarðar greiddir út til hlutafa í desember sl.

Sem fyrr segir stendur til að skrá Origo úr Kauphöll gangi þessar áætlanir eftir. Í auglýsingu fyrir tilboðið kemu fram að tilboðshafinn telji að ákveðin kaflaskil hafi átt sér stað hjá Origo í kjölfar söluá öllum eignarhlut félagsins í Tempo.

„Alfa Framtak vill taka þátt í þeim umbreytingum sem eru fylgifiskur slíkra kaflaskila í góðri samvinnu við núverandi stjórnendur og aðra hluthafa með því að skerpa enn frekar á þjónustufraboði og skipulagi félagsins – viðskiptavinum og félaginu til hagsbóta,“ segir í auglýsingunni.

Athygli vekur að í tilboðinu eru lagðar fram ýmsar hugmyndir sem telja má fýsilegar fyrir þá hluthafa sem kjósa að selja ekki hlut sinn. Rætt er um að til skoðunar komi að fá inn meðfjárfestar í einstakar rekstareiningar félagsins, að tækifæri séu í nýtingu á fjármunum félagsins til uppkaupa á hentugum viðbótareiningum, útgreiðslu hluta fjármunanna til hluthafa, í almennri endurskipulagningu og endurskoðun á húsakosti félagsins.

„Það er skoðun tilboðsgjafa að hlutabréf félagsins skuli afskráð úr kauphöll í því skyni að skapa aukinn sveigjanleika fyrir þær breytingar sem tilboðsgjafi telur að ráðast þurfi í,“ segir í auglýsingunni og tekið er fram að þeir verði ekki skráðir á öðrum markaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK