„Stjórn VM, Félags vélstjóra og málmtæknimanna, harmar þær rangfærslur sem fyrrum formaður félagsins hefur að undanförnu viðhaft um starfsemi VM í fjölmiðlum,“ segir í yfirlýsingu frá félaginu.
Tilefni hennar eru ásakanir Guðmundar Ragnarssonar, fyrrverandi formanns VM og sem nú sækist eftir embættinu á ný, um að verið sé að færa starfsemi félagsins undir önnur merki án þess að félagsmenn séu upplýstir um það. Auk þess hefur Guðmundur sagt fjármál félagsins vera í ólestri og að það kunni að vera til staðar grundvöllur fyrir lögreglurannsókn.
Í yfirlýsingunni segir stjórn VM ásakanir Guðmundar „alvarlegar og vega með grófum hætti að stjórn og starfsmönnum félagsins sem margir hverjir hafa áratuga starfsreynslu hjá félaginu. Það skal tekið fram að ársreikningar VM hafa undanfarin ár verið endurskoðaðir af Ernst og Young án nokkurra athugasemda. Stjórn VM telur mikilvægt að komandi formannskjör snúist um málefni og stöðu félagsmanna VM.“
Þá er tekið sérstaklega fram að VM sé ekki aðs ameinast öðru félagi og hafi fullt sjálfræði í öllum sínum málum „þrátt fyrir fyrirhugaða þátttöku í sameiginlegum hagsmunamálum iðnaðarsamfélagsins sem fyrirhugað er að verði undir merkjum 2F.“