Nýtt skip Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, Hoffell SU-80, sigldi í heimahöfn í brakandi blíðu í gærmorgun. Móttökuathöfn var við Bæjarbryggjuna þar sem skipið var blessað, því formlega gefið nafn og bæjarbúar og aðrir gestir fengu að skoða skipið og gæða sér á veitingum.
Séra Jóna Kristín Þorvaldsdóttir blessaði skip og áhöfn, Fanney Linda Kristinsdóttir, starfsmaður Loðnuvinnslunnar, gaf skipinu nafnið Hoffell og síðan fluttu ávörp þau Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, Arnfríður Eide Hafþórsdóttir mannauðs- og öryggisstjóri LVF og Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri.
Nýja Hoffell er 14 ára gamalt skip og því 9 árum yngra en fyrirrennarinn og 53% stærra. Lestin er 2.530 m3 á móti 1.650 m3 í eldra skipi, skipið er með 8.100 hestafla vél á móti 5.900 hestöflum og togkraftur er 40% meiri. Mjög góð aðstaða er fyrir áhöfn.
Áður hét skipið Asbjørn HG-265 og var í eigu danskrar útgerðar.
Í fréttinni stóð upphaflega ða um væri að ræða Hoffell SU-60 en númer skipsins er SU-80. Fréttin hefur verið leiðrétt með tilliti til þess.