Lífið gjörbreytt en deilir æfingum á Facebook

Heilsurækt | 1. nóvember 2020

Lífið gjörbreytt en deilir æfingum á Facebook

Ágústu Guðnýju Árnadóttur er umhugað um hreyfingu og heilsu. Hún rekur fæðubótarverslunina og boostbarinn Líkami og boost í Sporthúsinu í Reykjanesbæ og kennir hóptíma þar. Líf Ágústu hefur breyst mikið með tilheyrandi lokunum í kórónuveirufaraldrinum en hún er dugleg að deila heimaæfingum á Facebook. Æfingarnar eru aðgengilegar öllum.

Lífið gjörbreytt en deilir æfingum á Facebook

Heilsurækt | 1. nóvember 2020

Ágústa Guðný Árnadóttir hóptímakennari æfir heima og fær fólk með …
Ágústa Guðný Árnadóttir hóptímakennari æfir heima og fær fólk með sér á Facebook. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ágústu Guðnýju Árnadóttur er umhugað um hreyfingu og heilsu. Hún rekur fæðubótarverslunina og boostbarinn Líkami og boost í Sporthúsinu í Reykjanesbæ og kennir hóptíma þar. Líf Ágústu hefur breyst mikið með tilheyrandi lokunum í kórónuveirufaraldrinum en hún er dugleg að deila heimaæfingum á Facebook. Æfingarnar eru aðgengilegar öllum.

Ágústu Guðnýju Árnadóttur er umhugað um hreyfingu og heilsu. Hún rekur fæðubótarverslunina og boostbarinn Líkami og boost í Sporthúsinu í Reykjanesbæ og kennir hóptíma þar. Líf Ágústu hefur breyst mikið með tilheyrandi lokunum í kórónuveirufaraldrinum en hún er dugleg að deila heimaæfingum á Facebook. Æfingarnar eru aðgengilegar öllum.

Ágústa spilaði fótbolta lengi vel en seinna tók ræktin við. Ákveðin umskipti urðu í lífi hennar þegar hún ákvað að taka þátt í fitness. 

„Árið 2013 ákvað ég svo að taka þátt í módelfitness og svo í fitness árin 2014 til 2016. Eftir þann tíma hef ég haldið mig við líkamsrækt. Mér líður vel þar, það er alltaf gott að hreyfa sig, bæði fyrir líkama og sál,“ segir Ágústa. 

„Líf mitt hefur breyst mikið þar sem ástandið í kórónuveirufaraldrinum hefur haft mikil áhrif á starf mitt en vonandi er þessi breyting bara tímabundin,“ segir Ágústa sem er vön að vera í mikilli rútínu og hefur viðhaldið henni í faraldrinum þrátt fyrir breyttar aðstæður. 

Jákvætt hugarfar er mikilvægt þegar góð rútína er annars vegar og lykilatriði að brjóta sig ekki niður. 

„Þú kemst langt á jákvæðni og á að taka einn dag í einu. Ef dagurinn í dag mistekst þá kemur nýr dagur eftir þennan dag, við getum alltaf reynt að gera betur. Aldrei gefast upp. Við eigum að borða allan mat en við þurfum að læra á okkur sjálf, læra á líkamann, ekki hugsa um hvað aðrir eru að gera, ekki keppa við neinn annan, við erum okkar stærsti keppinautur þegar kemur að mat og hreyfingu. Ef við viljum sjá árangur þurfum við að byrja á okkur sjálfum og þá tala ég um hausinn, andleg líðan þarf að vera góð svo þú getir byrjað að setja þig í fyrsta sætið.“

Ágústa heldur í jákvæðnina en líf hennar hefur breyst mikið …
Ágústa heldur í jákvæðnina en líf hennar hefur breyst mikið í ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eitt af því sem Ágústa gerir til þess að halda rútínu er að fara á æfingu. Hún útbjó aðstöðu í bílskúrnum sínum þar sem hún tekur æfingar. Í fyrstu bylgjunni byrjaði hún að deila á samfélagsmiðlum æfingum sem fólk getur gert heima og hefur haldið því áfram í haust.

„Ég byrjaði með heimaæfingar á „insta story“ hjá mér í fyrstu bylgju kórónuveirunnar. Ég fékk svo góð viðbrögð að ég ákvað að búa til síðu á Facebook sem heitir Heimaæfingar með Ágústu Árna sem öllum er velkomið að nýta sér ef þá vantar fjölbreytileika og nýjar æfingar,“ segir Ágústa sem notar lóð og teygjur yfir í potta, stóla og jafnvel klósettpappír til þess að framkvæma æfingarnar. „Við vinnum í lausnum. Ef við viljum hreyfa okkur þá er hægt að notast við margt sem maður á til heima. Þetta er líka viss hvatning fyrir mig að vita það að ég er að koma einhverju góðu frá mér út í samfélagið. Látum hugmyndaflugið ráða og gerum þetta skemmtilegt saman.“

Hvernig er að æfa heima?

„Það getur verið erfitt að viðhalda áhuganum en ég er mjög lánsöm með að tilheyra skemmtilegum og góðum æfingahópi þar sem við fylgjumst hvert með öðru. Við erum dugleg að hvetja hvert annað áfram á þessum erfiðu tímum,“ segir Ágústa. 

Þegar Ágústa er beðin að mæla með einni æfingu segir hún það erfitt og segir alla hreyfingu jákvæða. Fyrsta skrefið sé að fara á fætur. 

„Byrjaðu alla daga á því að teygja úr þér, stattu upp, labbaðu inn í eldhús, fáðu þér vatnsglas og brostu, þetta verður góður dagur,“ segir Ágústa sem hvetur fólk til þess að hreyfa sig og borða hollt en líka lifa og njóta. Sjálf er hún lítið fyrir boð og bönn. Að huga að heilsunni er langhlaup en ekki spretthlaup og hún mælir með því að fólk setji sér raunhæf markmið. 

Áhugasamir geta skoðað facebooksíðu Ágústu og reynt sig við æfingar hennar. 

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman